Skoðun

Ef ég bý til ótrúlega grípandi fyrirsögn, muntu þá lesa þessa grein?

Haraldur Gíslason skrifar
Ég sat skólaþing sveitarfélaga nú á dögunum. Ágætis þing þó jafnvægi á milli skólastiga hefði mátt vera meira. Það verður þá bara meira jafnvægi næst. Á þinginu kom fram viðhorf sem ég finn að er orðið mjög almennt í samfélaginu. Það verður að stíga stór skref í næstu kjarasamningum til að hækka laun kennara á öllum skólastigum.

Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hélt ágætis erindi og kom meðal annars inn á nauðsyn þess að hækka laun kennara til að fjölga nemendum í grunn- og leikskólafræðum. Menntamálaráðaherra steig á stokk og tók af allan vafa um það að að fimm ára nám kennara á öllum skólastigum verður ekki stytt.

Samkvæmt lögum 87/2008 um menntun og ráðningu kennara þurfa 2/3 hlutar þeirra sem sinna uppeldi og menntun í leikskólum að hafa leyfisbréf ráðherra til kennslu á leikskólastigi. Svo verður áfram.

Það kom því flestum spánskt fyrir sjónir að lesa fyrirsögn Fréttablaðsins daginn eftir þingið: „Ráðherra vill bjóða styttra nám fyrir leikskólakennara“. Ég geri mér grein fyrir því að þessu er slengt svona fram til að skapa umræðu og auka lestur. En auðvitað skapar þetta misskilning að ég tala nú ekki um þegar aðrir fjölmiðlar fjalla síðan um málið út frá því hvernig þeir túlkuðu fyrirsögnina.

Hið rétta er að eins og kjarasamningar og lögin eru í dag er alveg rými til þess að ráða í 1/3 hluta þeirra sem sinna uppeldi og menntun, einstaklinga sem hafa einungis B.ed. í leikskólakennarafræðum. Meira að segja er hægt að koma á aftur 90 eininga diplómanámi í leikskólakennarafræðum og ráða einstaklinga með þá menntun einnig í 1/3 hlutann.

Það getur jafnvel verið skynsamleg leið til að fjölga nemum í leikskólafræðum að hægt sé að hvíla sig á námi á þessum svokölluðu uppgönguleiðum í átt að meistaranámi og leyfisbréfi til kennslu á leikskólastigi.

Það er undarleg tilhneiging að taka leikskólastigið út fyrir sviga þegar rætt er um styttingu á kennaranámi, þegar fækkun í kennaranámi er einnig á öðrum skólastigum og jafnvel alþjóðlegt vandamál. Það er ekki þannig að eftir því sem nemendurnir eru yngri, sé minni þörf á vel menntuðu fólki til að kenna þeim, nema síður sé.

Starf leikskólakennarans sem og kennara á öðrum skólastigum hefur bæði verið vanmetið og breyst það mikið að nú er nauðsynlegt að hafa fimm ára meistaranám til að sinna þessum störfum. Í erindi Ingvars kom fram að það hefur orðið um 50% aukning á inntöku í leikskólakennarafræði hjá HÍ frá 2011. Það rennir stoðum undir það sem haldið var fram að við lengingu námsins yrði tímabundin fækkun nema.

Lögin frá 2008 eru staðreynd. Þeim verður ekki breytt. Það væri því ágætt ef við gætum hætt að spóla í þessum hjólförum. Fyrstu nemarnir sem útskrifast eftir að nýju lögin tóku gildi munu útskrifast vorið 2014. Kjarasamningar eru lausir 30. apríl 2014. Nýtum tímann skynsamlega og stígum stór skref í næstu kjarasamningum til að leiðrétta laun og starfskjör leikskólakennara. Ég er sannfærður um að það muni fjölga leikskólakennaranemum.






Skoðun

Sjá meira


×