Lífið

Vill flytja tólf metra kafbát til Íslands

Freyr Bjarnason skrifar
Ásgeir Einarsson dreymir um að reka ferðaþjónustu í kringum kafbát sem hann ætlar að kaupa í Bandaríkjunum.
Ásgeir Einarsson dreymir um að reka ferðaþjónustu í kringum kafbát sem hann ætlar að kaupa í Bandaríkjunum.
„Við erum með svo hreinan sjó, þetta er bara eins og að sitja í rútu neðansjávar,“ segir Ásgeir Einarsson frá Akranesi, sem hefur verið atvinnukafari í fjörutíu ár.

Hann er að leita að tólf metra kafbát í Bandaríkjunum sem hann hyggst nota í ferðaþjónustu strax næsta sumar. Ætlunin er að fara með hópa í neðansjávarferðir en Ásgeir hefur gengið með þessa hugmynd í maganum frá því hann var lítill krakki og hefur skoðað kafbáta sér til gamans bæði í Reykjavík og Bretlandi.

„Þetta umhverfi er mun fallegra en hálendið, miklu fallegra. Ég held að Breiðafjörðurinn verði ein mesta ferðamannaparadís í Evrópu í framtíðinni. Eyjarnar þar standa á súlum þar sem sjórinn hefur étið upp bergið. Þar undir er svo allt krökkt af rækju og síld. Þetta er eiginlega ólýsanlegt,“ segir hann og bætir við: „79 prósent af heiminum er undir vatni. Þarna er óspillt land og þarna eru menn ekkert að rífast um hraun og veg eða eitthvað annað. Við eigum hreinasta sjó í heimi og höfum mikið að sýna.“

Ásgeir segir tugi skipa liggja á hafsbotni víðsvegar í kringum landið. Nefnir hann frystitogara sem hann á sjálfur sem sökk fyrir vestan fyrir þrjátíu árum. „Svo er Þrymur í Tálknafirði og rækjubátar í Arnarfirðinum. Á mýrunum á Snæfellsnesi eru líka tugir skipa sem liggja þar í sjónum, svo eitthvað sé nefnt.“

Ásgeir, sem er 61 árs, ætlar að markaðssetja ferðirnar sem háklassa ferðaþjónustu og nefnir að þyrluflugmenn séu að fljúga nánast allan sólarhringinn. „Því held ég að fólk hafi alveg áhuga á að komast í svona ferðir.“

Spurður hvað kosti að fá svona kafbát til Íslands segir hann þetta vera „milljónaspursmál“. „Það er verið að vinna í þessu á fullu. Það eru margir fjársterkir aðilar að spá og spekulera með mér í þessu.“

Hann býst við að í kringum tíu manns kæmust í hverja ferð í kafbátnum, það er ef leyfi myndi fást fyrir þessari nýstárlegu ferðaþjónustu. Hver og einn þyrfti að punga út tugum þúsunda króna, rétt eins og þeir sem fara í þyrluflug.

Ásgeir segist vilja deila áratuga reynslu sinni neðansjávar með öðru fólki áður en hann fer í gröfina. „Aðrir skrifa bók og segja frá því sem þeir hafa séð og upplifað. Þetta er eitthvað sem ég er búinn að skoða og það kitlar mig alveg svakalega að geta sýnt öðru fólki undir sjávarmálið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.