Skoðun

Þetta er allt annar handleggur

Halldór Þorsteinsson skrifar
Undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig þetta orðatiltæki hljómar á nokkrum evrópskum tungumálum. Engilsöxum er tamt að segja ýmist „a horse of another colour“ eða „It is a different kettle of fish“.

En ef við bregðum okkur yfir Ermasundið, „La Manche“ á frönsku sem merkir einfaldlega ermin, þá kemur sitt hvað skemmtilegt í ljós sökum svipaðrar hugsunar sem felst í íslenskunni og frönskunni, en á því síðarnefnda hljómar það svona: „c‘est une autre paire de manches“, þ.e.a.s. það er annað par af ermum sé það þýtt bókstaflega.

Og höldum nú suður á bóginn, alla leið til Ítalíu og viti menn að Ítalir orða þetta nánast alveg eins og Frakkar, þ.e. „é tutto un altro paio di maniche“.

Mér vitanlega er ekki til neitt sambærilegt orðatiltæki hvorki á þýsku né Norðurlandamálunum, þar sem handleggur eða ermar koma við sögu.

Í beinu framhaldi af þessu er rétt að geta þess að Spánverjar eru ekkert að apa eftir fyrrnefndu rómversku þjóðunum tveimur, því á þeirra tungu er þetta svona: „Ser harina de otro costal“ þ.e. að vera hveiti úr öðrum sekk“ en að mínu vitu síst lakara né blæbrigðaminna en í hinum fyrrnefndu tungumálunum.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða að þakka fyrir góðar undirtektir við fyrri pistli mínum um svipað efni. Punktur og basta.




Skoðun

Sjá meira


×