Lífið

Frægur dansari dæmir í dansbardaga

Sara McMahon skrifar
Emilio Austin Jr. ásamt Brynju Pétursdóttur, hún skipuleggur dansbardaga sem fram fer á laugardag.
Emilio Austin Jr. ásamt Brynju Pétursdóttur, hún skipuleggur dansbardaga sem fram fer á laugardag. Fréttablaðið/Pjetur
Dansbardagi fer fram í íþróttahúsi Seljaskóla á laugardag klukkan 16. Dansskóli Brynju Péturs stendur fyrir viðburðinum og er bandaríski dansarinn og danshöfundurinn Emilio Austin Jr, öðru nafni Buddha Stretch, kominn hingað til lands til að dæma í keppninni.

Austin var fjórtán ára þegar hann hóf að æfa dans og byrjaði feril sinn sem „b-boy“, eða breik-dansari. Hann segist þó ekki hafa verið sérlega fær í breik-dansinum og því skipti hann fljótlega yfir í „popping“, sem er danstegund náskyld hiphop-dansi.

„Ég reif alltaf fötin mín í breik-dansi, sem var sönnun þess hversu lélegur ég var, almennilegur breik-dansari rífur ekki göt á fötin sín,“ segir hann og hlær.

Hiphop-menningin var að ryðja sér rúms á þessum tíma og tók Austin fullan þátt í mótun þess. „Dansgengi spruttu upp víða og í mörgum tilfellum urðu þau þín önnur fjölskylda, jafnvel þín eina. Það er kannski hægt að líkja dansgengi við fótboltalið; allir kunna að spila fótbolta en þó hefur hver og einn sitt hlutverk innan liðsins. Allir í dansgengi geta dansað, en svo ertu með poppara eða breikara.“

Svaraði spurningum Michael Jackson

Austin á langan feril að baki sem danshöfundur og hefur meðal annars unnið náið með tónlistarfólki á borð við Busta Rhymes, Mariah Carey, Will Smith, Salt‘n Pepa, Whitney Houston, Public Enemy, Run DMC og Michael Jackson. Spurður út í Michael Jackson segir Austin: „Hann var í einu orði sagt magnaður! Og alveg sérstaklega lærdómsfús, hann vildi vita allt um hiphop og uppruna þess og spurði þúsund spurninga. Ég var 23 ára þegar þetta var og það var skrítið að standa frammi fyrir Jackson og svara spurningum hans,“ rifjar hann upp.

Þetta er í fyrsta sinn sem Austin sækir Ísland heim. Aðspurður segist hann helst leita eftir fimm atriðum í fari dansara. „Takti, tækni, færni, hversu skapandi dansara eru og karakter – hið síðastnefnda er það mikilvægasta að mínu mati,“ segir hann að lokum.

Hér að neðan má sjá myndbandið með Michael Jackson sem Austin vann að.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.