Lífið

Hvetur til hörmulegra tónsmíða á laugardaginn

Rósa Birgitta Ísfeld skipuleggur vondulagakeppni sem fer fram á Dolly á laugardag.
Rósa Birgitta Ísfeld skipuleggur vondulagakeppni sem fer fram á Dolly á laugardag. Fréttablaðið/Anton
Vondulagakeppnin verður haldin í þriðja sinn laugardaginn næsta, 26. október, á skemmtistaðnum Dolly í Hafnarstræti.

Að venju er það tónlistarkonan Rósa Birgitta Ísfeld, söngkona í Sometime, sem stendur fyrir keppninni, en hún er alltaf haldin í kringum afmæli Rósu, síðast árið 2011.

„Þátttakendur flytja frumsamið lag en það er Júróvisjónstandard á því,“ segir Rósa Birgitta.

„Það má semsagt ekki vera lengra en þrjár mínútur að lengd,“ segir hún jafnframt.

„Þetta hefur verið alveg ótrúlega skemmtilegt undanfarin ár og margir tekið þátt. Í síðustu keppni var í fyrsta sinn sem einhver sem ég þekki ekki tók þátt. Það voru þrír félagar í hljómsveit sem hefur ekkert nafn hlotið enn, en þeir komu, sáu og sigruðu með hörmulegri tónsmíð og viðbjóðslegum söng. Þá er takmarkinu náð,“ segir Rósa, og segir þetta með skemmtilegri kvöldum ársins að sínu mati.

Í dómnefnd í þetta sinn eru Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi og Baggalútur, Elísabet Eyþórsdóttir úr hljómsveitinni Sísý Ey og Steinþór Helgi Arnsteinsson, en hann er umboðsmaður hljómsveita á borð við Hjaltalín og Ylju.

„Ég hef heyrt út undan mér að Hermigervill, Ásgeir Trausti og Emmsjé Gauti séu meðal þeirra sem taka þátt í ár,“ segir Rósa, og hvetur alla áhugasama til að vera með en hægt er að skrá sig á Facebook-síðu vondulagakeppninnar.

Hér að neðan má sjá sigurvegarana árið 2011.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.