Lífið

Heldur ræðu um kvenréttindi hjá BBC

Freyr Bjarnason skrifar
Sigríður María Egilsdóttir er annar af tveimur aðalræðumönnum morgundagsins hjá BBC.
Sigríður María Egilsdóttir er annar af tveimur aðalræðumönnum morgundagsins hjá BBC. fréttablaðið/valli
„Þetta er alveg rosalega spennandi og alveg æðislegt. Ég er mjög þakklát en geðveikt stressuð líka,“ segir Sigríður María Egilsdóttir.

Hún verður annar af tveimur aðalræðumönnunum á viðburði sem breska ríkisútvarpið, BBC, stendur fyrir á morgun um konur og framtíðarmarkmið þeirra. Alls taka eitt hundrað konur víða að úr heiminum þátt í viðburðinum sem fer fram í höfuðstöðvum BBC í London og verður hægt að fylgjast með honum í sjónvarpi, útvarpi og á vefsíðu BBC.

„Konan sem vinnur að skipulagningunni þekkir íslenska konu sem benti henni á mig,“ segir Sigríður María aðspurð. „Síðan höfðu þau samband og spurðu hvort ég vildi taka þátt. Þetta er tækifæri sem maður eiginlega getur ekki sagt nei við.“

Sigríður María, sem útskrifaðist úr Versló í vor, varð í apríl fyrsta konan í fjórtán ár sem hlaut titilinn Ræðumaður Íslands á Morfís, ræðukeppni framhaldsskólanna. Hún vakti einnig athygli fyrir fyrirlestur sinn „Three Generations Theory“ á viðburðinum Ted x Reykjavík í sumar sem fjallaði um jafnrétti kynjanna og kvennabaráttuna.

Sigríður María segist vera búin að skrifa ræðuna sem hún ætlar að flytja á BBC og hefur að undanförnu verið að læra hana utan að. Hún mun taka um átta mínútur í flutningi. „Ég ætla að tala um framtíð kvenréttindabaráttunnar, hvert hún stefnir,“ segir hún, spurð út í innihald ræðunnar.

„Ég hugsa að ástæðan fyrir því að þeir fengu mig til að gera þetta var að fá unga manneskju til að vera með ræðu. Líka af því að ég kem frá Íslandi, landinu sem er búið að vera í mörg ár í röð, samkvæmt Global Gender Gap Report, á lista yfir þau lönd sem hafa náð bestum árangri og standa fremst í jafnrétti kynjanna.“

Sigríður María flýgur út til London í dag og verður forvitnilegt að fylgjast með á BBC hvernig henni reiðir af.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.