Lífið

Einn þekktasti uppistandari heims skemmtir í Hörpu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Skapandi viðburða, lofar mikilli skemmtun í kvöld.
Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Skapandi viðburða, lofar mikilli skemmtun í kvöld. fréttablaðið/daníel
„Hann er að koma hingað til lands í fjórða sinn en hann er með glænýja sýningu,“ segir Kristinn Bjarnason, framkvæmdastjóri Skapandi viðburða, sem stendur á bak við uppistandssýningu Pablos Francisco í Hörpu í kvöld.

Með Francisco í för er uppistandarinn Sean Savoy, en sá kom einnig með honum hingað til lands árið 2010. „Sean Savoy kom heldur betur á óvart og stal senunni,“ bætir Kristinn við. Þeir félagar ætla koma fram með nýtt efni í kvöld.

Pablo Francisco hefur í mörg ár verið einn þekktasti og virtasti uppistandari heimsins og hefur, eins og fyrr segir, fjórum sinnum komið fram hér á landi.

Spurður út í kröfulista uppistandarans segir Kristinn: „Hann er nú ekki með neinn svakalegan kröfulista, síðast vildi hann bara fá sterkan ítalskan subway, kók, kaffi og aðra eðlilega hluti en engin bleik handklæði.“

Francisco ætlar að stoppa á Íslandi í nokkra daga, en hann er mjög hrifinn af landi og þjóð. „Hann stoppar lengur núna heldur en síðast, fer í Bláa lónið og svo eru miklar líkur á því að hann kíki í bæinn um helgina,“ bætir Kristinn við.

Francisco á aðdáendahóp í Færeyjum og kemur sá hópur sérstaklega til landsins til að sjá uppistandarann.

Kristinn segir það vera mjög gaman að standa í þessum innflutningi og telur að uppistandið ætti að geta gefið fólki ágætis skammt af gleðiefni fyrir veturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.