Skoðun

Kennarar, hvar er dýfan?

Tinna Sigurðardóttir skrifar
Við vinkonurnar vorum að ræða málin um daginn. Sjö okkar eru í háskólanámi. Við erum allar í mismunandi fögum; hjúkrunarfræði, lyfjafræði, sálfræði, félagsráðgjöf, ferðamálafræði, verkfræði og viðskiptafræði. Við erum sem sagt mjög ólíkar. Samt sem áður vorum við sammála um að við værum allar með einn eða tvo kennara sem við vildum helst að gerðu eitthvað í kennslutækni sinni.

Innantómur glærulestur

Mig langaði bara að skrifa smá vitundarvakningu fyrir kennarasamfélagið og hvetja kennara til að gera kennslu líflega. Ég get sagt ykkur það, kæru kennarar, að innantómur glæruupplestur er ekki það sem flestir nemendur sækjast eftir, við kunnum jú allflest að lesa, er það ekki? Talið í kringum glærurnar, hoppið upp á borð og segið frá Sókrates eða gangið um salinn og talið um hreyfingu sameinda, pH-gildi blóðs eða siðavenjur Hadzabe-þjóðflokksins í Afríku. Haldið athygli nemendanna! Við getum alveg lesið glærurnar sjálf.

Klárið þetta með stæl

Nú er misserið komið á seinni helming og því um að gera að rífa sig upp og klára þetta með stæl! Þið eigið enn von til að verða skemmtilegi kennarinn eða allavega kennarinn sem maður lærir af. Námið getur verið áhugavert og kennslan drep. En námið verður ekki skemmtilegt fyrr en kennslan og námið tvinnast almennilega saman, alveg eins og ís með dýfu er ekki ís með dýfu ef það vantar dýfuna. Ég óska þess að þið takið þetta til ykkar elsku kennarar, því þið eruð lykillinn að skemmtilegu námi.

Rífið ykkur upp, stingið ísnum í dýfuna og gerið allt vitlaust!




Skoðun

Sjá meira


×