Innlent

Fækkun starfsfólks um áramót

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari
„Ég get ekkert tjáð mig um þetta núna. Við getum ekkert sagt fyrr en fjárlagafrumvarpið er komið fram,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, um fyrirhugaða fækkun starfsmanna hjá embættinu.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að talsverð fækkun verði um næstu áramót. „Á meðan það er ekki komin ákvörðun þá getur maður ekkert sagt. Auðvitað sjáum við hvað í stefnir þegar við erum búin að sjá tölurnar.“

Ólafur Þór segir að embættið hafi skilað tillögugerð til innanríkisráðuneytisins varðandi fjárlög næsta árs en síðan fengið upplýsingar um að hún næði ekki fram að ganga.

Embættið hefur minnkað starfsemina um tíu prósent og fækkað starfsmönnum eftir því en starfsmenn eru nú 99, en voru 109 á síðasta ári.

Í fjárlögum 2012 fékk embættið 1,3 milljarða króna en það framlag var lækkað um tæplega hálfan milljarð króna í fjárlögum þessa árs niður í 849 milljónir.

Embættið átti uppsafnaðar fjárheimildir upp á 487 milljónir króna sem að langstærstum hluta voru nýttar á þessu ári. Það eru því ekki teljandi fjármunir til að flytja yfir á næsta ár.

Ólafur segir að enn séu sextíu hrunmál í rannsókn hjá embættinu. Í áætlun frá 2010 var gert ráð fyrir því að embættið starfaði út árið 2014.

En hvernig sér Ólafur embættið fyrir sér á árinu 2014?

„Það fer eftir því hvað fæst í reksturinn. Það eru fjárframlögin sem stýra stærð og umfangi starfseminnar,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×