Skoðun

Forvitnilegt rannsóknarefni?

Halldór Þorsteinsson skrifar
Er náinn skyldleiki indóevrópskra tungumála ekki býsna forvitnilegt rannsóknarefni?

Þar sem sá sem þetta ritar hefur kennt þó nokkur erlend tungumál um langt árabil hefur sitthvað vakið athygli hans sem er ákaflega forvitnilegt að benda á og það sérstaklega þeim sem kunna að hafa áhuga á slíku efni.

Til að byrja með ætla ég að taka fyrir eitt dæmi og það er enska orðið „ford“. Að gamni mínu hef ég spurt nokkra góða enskumenn að því hvað það merki og hafa allflestir þeirra staðið á gati að undanskildum einum. Oxford merkir t.d. uxavað og það er meira að segja til sögnin „ford a river“, þ.e. að fara yfir á vaði. Vað á þýsku er hins vegar „furt“ samanber Frankfurt, er merkir „Frankavað“. Á dönsku er vað „vadested“.

Á frönsku er vað „gué“ og „traverser à gué“ þýðir að fara yfir á vaði. Nú er komin röðin að ítölskunni, en á því fagra máli er það „guado“, og nú kemur rúsínan í pylsuendann, því vað á spænsku er „vado“, en úr því að ég er þegar kominn í svo miklar kennarastellingar sakar ekki að geta þess að „d“ á milli sérhljóða á spænsku er borið fram eins og „ð“ á íslensku.

Af tómri forvitni fletti ég svo upp franska orðinu „gué“ í Le Petit Robert (fra-fra orðabók) og þar stendur að það sé dregið af latneska orðinu „vadum“ og þar höfum við það klappað og klárt, þ.e. um uppruna orðsins vað. Nú væri ef til vill ráðlegast fyrir mig að hætta að vaða („wade“ á ensku) elginn að minnsta kosti svona í bili. Hver veit nema ég láti aftur í mér heyra um svipað efni?




Skoðun

Sjá meira


×