Innlent

Minnisvarðinn Sigursteinn verði reistur á Skaganum

Elimar Hauksson skrifar
Svona hugsar Baski sér að sigursteinn gæti litið út. Bæjastjóri Akraness segist fullviss um að steininum verði fundinn góður staður.
Svona hugsar Baski sér að sigursteinn gæti litið út. Bæjastjóri Akraness segist fullviss um að steininum verði fundinn góður staður.
Myndlistarmaðurinn Bjarni Skúli Ketilsson hefur unnið drög að minnisvarða um árangur knattspyrnumanna frá Akranesi. Steininn vill hann nefna í höfuðið á knattspyrnuhetjunni Sigursteini Gíslasyni frá Akranesi.

Bjarni, sem er betur þekktur undir listamannsnafninu Baski, vill reisa minnisvarðann á æfingasvæðinu hjá Akranesvelli og hefur sent bæjarstjórn Akranesbæjar erindi þess efnis.

„Mín hugmynd er að hafa stein sem geymir nöfn allra sem einhvern tímann hafa orðið Íslandsmeistarar með Akranesi í fótbolta, og þá á ég við alla flokka stelpna og stráka frá 1946 til dagsins í dag,“ segir Baski. Hann segir steininn jafnframt hugsaðan sem hvatningu fyrir unga fólkið til að standa sig vel.

„Ég er búinn að grafa upp nærri þúsund nöfn en síðan verða auðir fletir fyrir komandi kynslóðir til að koma á.“

Bjarni Skúli Ketilsson
Aðspurður um tilkomu hugmyndarinnar segir Baski að nafn Sigursteins hafi kveikt hana. „Ég kom með þessa hugmynd fljótlega eftir að Steini lést. Mér fannst þetta góð hugmynd þar sem nafnið hans þýðir í raun sá sem vinnur.“

Baski segir steininn alls ekki hugsaðan sem sorgarstein heldur sem hvatningu fyrir unga fólkið til að ná langt. „Steini vildi hvorki láta syrgja sig né annað. Steininn er því hugsaður sem hvatningarsteinn fremur en sorgarsteinn.“

Þrátt fyrir að vera búsettur í Hollandi ber Baski sterkar taugar til Akranesbæjar. „Ég er sjálfur fæddur og uppalinn á Akranesi og er mjög annt um minn heimabæ. Því væri mjög gaman að fá tækifæri til að gera verk fyrir Akranes,“ segir Baski.

Hann segir kostnað við verkið vera um fjórar til fimm milljónir, lauslega reiknaðar þegar allt er talið, og leitar nú styrktaraðila að verkinu.

Bæjarstjóri Akranesbæjar, Regína Ásvaldsdóttir, segir bæinn taka vel í hugmyndina en að bærinn vilji fyrst fá afstöðu Íþróttabandalagsins til verkefnisins.

„Bæjarfélagið hefur almennt ekki forystu um verkefni sem þessi en við höfum hins vegar eitthvað að segja um staðsetninguna. Ég er viss um að við getum fundið þessu verkefni góðan stað á Akranesi,“ segir Regína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×