Innlent

Læra að sauma nýjar flíkur úr gömlum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Karlar voru einnig þátttakendur á saumanámskeiði Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í fyrra.
Karlar voru einnig þátttakendur á saumanámskeiði Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishersins í fyrra.
 Þátttakendur á saumanámskeiðum Hjálparstarfs kirkjunnar og Hjálpræðishers Reykjavíkur í fyrra verða aðalleiðbeinendur á saumanámskeiðunum sem haldin verða í vetur.

„Við erum að virkja skjólstæðingana okkar sem er alveg frábært. Þeir voru fyrst þátttakendur á námskeiðunum og urðu svo aðstoðarmenn þar sem þeir stóðu sig svo vel. Núna verða þeir aðalleiðbeinendurnir,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfinu.

Hún getur þess að mikið hafi verið spurt hvort ekki yrðu haldin slík námskeið að nýju. „Við erum búin að fínpússa námskeiðin. Byrjað verður á námskeiði þar sem undirstöðuatriði saumaskapar verða kennd. Á framhaldsnámskeiði verður svo kennt hvernig hægt er að gera við föt og breyta þeim. Þátttakendur geta komið með föt að heiman sem þeir vilja breyta eða fengið föt hjá okkur og búið til nýjar flíkur úr þeim. Bæði við og Hjálpræðisherinn eigum óhemjumikið magn af notuðum fötum sem nýta má til slíks. Þessi námskeið styrkja skjólstæðingana okkar og það gerðu einnig sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur sem haldin voru í fyrra. Við stefnum að því að halda slík námskeið á ný. Þetta er hópur sem er mjög afskiptur og einangraður.“

Að sögn Vilborgar er jafnframt verið að leita að samstarfsaðilum svo hægt sé að halda námskeið í sláturgerð í haust. „Það tekst vonandi fljótlega. Slátur er ódýr matur. Þeir sem kunna sláturgerð geta sparað talsvert.“

Svokallaður skólastuðningur hefur verið veittur um 400 grunnskólabörnum í haust. „Stuðningur er veittur upp í kostnað vegna skólabyrjunar,“ segir Vilborg.

Um 100 fjölskyldur hafa fengið styrk vegna skólagöngu framhaldsskólanema. „Þau koma þá með kvittanir fyrir skólagjöldum og bókakaupum. Við erum einnig í samstarfi við Velferðarsjóð barna vegna framhaldsskólanema. Við útvegum þeim uppgerðar notaðar tölvur sem eru í fínu standi.“

Á síðasta starfsári fengu 2.230 fjölskyldur aðstoð hjá Hjálparstarfinu á einn eða annan hátt í 5.411 skipti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×