Innlent

Bláa lónið fylltist af ferðamönnum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gestir voru ekki að flýta sér í blíðviðrinu í Bláa lóninu í gær.
Gestir voru ekki að flýta sér í blíðviðrinu í Bláa lóninu í gær. Mynd/Atli Kristjánsson
„Aðsóknin er til marks um að ferðamannatímabilið er að lengjast sem er afar jákvæð þróun ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarfulltrúi Blá lónsins, þar sem tekið var á móti um tvö þúsund gestum í gær.

Magnea segir að á góðum degi um hásumar komi mest um þrjú þúsund manns í Bláa lónið. Í gær hafi verið gestir af skemmtiferðaskipunum Caribbean Princess og Adventure of the Seas auk annars hóps sem átti bókað. Svipaður fjöldi hafi mætt á einum degi í Bláa lónið í september í fyrra. Allt árið 2012 voru gestirnir 585 þúsund.

Að sögn Magneu gekk allt vel fyrir sig þrátt fyrir mannfjöldann sem fyllti alla ganga.

„Nokkrir gestir áttu ekki von á að þurfa að bíða. En starfsfólk okkar gerir sitt besta að gestum líði vel og var þeim sem þurftu að bíða sem lengst, það er í um klukkustund, boðið upp á á ís og kaffi,“ segir Magnea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×