Viðskipti innlent

14 þúsund tonna aukning í þorski á milli fiskveiðiára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Brimnes RE 27, skip í eigu Brims hf., fær 9.500 þorskígildistonn. Fréttablaðið/Anton Brink
Brimnes RE 27, skip í eigu Brims hf., fær 9.500 þorskígildistonn. Fréttablaðið/Anton Brink
Fiskveiðiárið 2013/2014 hófst formlega á sunnudag þegar Fiskistofa úthlutaði aflamarki til 627 skipa.

Fiskistofa úthlutaði að þessu sinni 381.431 tonni í þorskígildum talið, samanborið við 348.553 tonna úthlutun á síðasta fiskveiðiári. Í tilkynningu á heimasíðu Fiskistofu kemur fram að úthlutunin sé 33 þúsund tonnum meiri en í fyrra, þegar aflamark síðasta árs er reiknað í þorskígildum nýhafins fiskveiðiárs.

Aukningin er mest í úthlutun í þorski. Aflamark slægðs þorsks er 171 þúsund tonn og hækkar um fjórtán þúsund tonn á milli fiskveiðiára. Úthlutun í síld hækkar einnig, um sextán þúsund tonn, en síðar á árinu verður úthlutað aflamarki úr deilistofnum og þá er líklegt að aukið verði við aflamark í uppsjávartegundum. Úthlutun í gullkarfa hækkar um sex þúsund tonn og í ufsa um þrjú þúsund tonn. Aftur á móti lækkar aflamark grálúðu um rúm tvö þúsund tonn á milli ára.

Þrjár nýjar kvótategundir er að finna í úthlutun Fiskistofu. Þær eru blálanga, gulllax og litli karfi. Aðeins er úthlutað 80% aflamarksins í þeim tegundum og í tilkynningu Fiskistofu segir að afganginum verði úthlutað þegar útgerðir, sem telja sig búa yfir aflareynslu, hafa gert athugasemdir við upphafsúthlutunina. 

Fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin fá úthlutað um 328 þúsund tonnum, eða sem nemur um 86% af úthlutuðu heildaraflamarki. Sömu þrjú útgerðarfyrirtækin mynda röð efstu fyrirtækja og undanfarin ár. HB Grandi fær mestu úthlutað, eða 11% af heildinni. Þar á eftir koma Samherji á Akureyri með 6,8% og Þorbjörn hf. í Grindavík með 5,5% af heildinni. Mest aflamark fer til Brimness RE 27, rúm 9.500 þorskígildistonn, en skipið er í eigu Brims hf.

Þegar tölur um úthlutun eftir heimahöfnum eru skoðaðar sést að þrjár hafnir skera sig úr öðrum. Skip með heimahöfn í Reykjavík fá mest aflamark, eða 13,3% af heildinni. Næstmest fá skip með heimahöfn í Vestmannaeyjum, eða 11,2% og þar á eftir skip með heimahöfn í Grindavík, sem fá 8,4% af heildinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×