Viðskipti innlent

Íslendingar telja fyrirtæki ekki axla samfélagsábyrgð

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Samfélagsábyrgð ósannfærandi Að mati Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, er þörf á að leiðbeina íslenskum fyrirtækjum betur í átt að samfélagslega ábyrgum starfsháttum.
Samfélagsábyrgð ósannfærandi Að mati Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, er þörf á að leiðbeina íslenskum fyrirtækjum betur í átt að samfélagslega ábyrgum starfsháttum.
Um 42 prósent almennings telja íslensk fyrirtæki axla samfélagslega ábyrgð sína illa, samkvæmt nýrri rannsókn sem framkvæmd var fyrir Festu, en Festa er miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja.

Í könnuninni var viðhorf almennings og stjórnenda til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja rannsakað. Niðurstöðurnar gefa til kynna að stór hluti almennings telji fyrirtæki ekki axla ábyrgð sína. Niðurstöðurnar sýna jafnframt að stór hluti almennings og stjórnenda tekur ekki afstöðu til málsins.



Ketill B. Magnússon
„Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingu um að þörf sé á vitundarvakningu um samfélagsábyrgð meðal fyrirtækja og almennings og að leiðbeina þurfi fyrirtækjum betur í átt að samfélagslegum starfsháttum,“ segir Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu. Flestir svarendur í könnuninni tengdu hugtakið samfélagsábyrgð við umhverfismál og samfélagsstyrki, sem Ketill segir áhugavert og benda til þess að þörf sé á aukinni umræðu og þekkingu á samfélagsábyrgð og hvernig fyrirtæki geta staðið að innleiðingu ábyrgra stjórnarhátta. „Hlutfall þeirra sem eru óvissir um afstöðu sína gagnvart hugtakinu er ofsalega hátt, sem bendir hreinlega til þess að fólk sé ekki með skýra skoðun á samfélagsábyrgð fyrirtækja.“

Ketill segir að mikilvægt sé að stjórnendur í fyrirtækjum átti sig á því í hverju samfélagsábyrgð felst, að hún sé meira en einungis umhverfismál og samfélagslegir styrkir. „Fyrirtæki þurfa að taka ákvörðun um að innleiða ábyrga starfshætti og sýna fram á að starfsemi þeirra sé ábyrg og heiðarleg í gegn. Þetta gera þau ekki með tímabundnu ímyndunarverkefni heldur algjörri breytingu í starfsemi og menningu fyrirtækisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×