Skoðun

Það er efnahagurinn, flónið þitt!

Eiríkur Bergmann skrifar
Megináhersla Bills Clinton fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 1992 var að búa hagkerfi þess víðfeðma lands undir áskoranir 21. aldarinnar. Slagorðið It's the economy stupid! þótti grípa þá áherslu. Nú þegar nokkuð er liðið á öldina er bersýnilegt að íslenska hagkerfið er hvorki sjálfbært né búið undir aðsteðjandi áskoranir.

Kerfisgallinn

Kerfisgalli íslensks efnahagslífs varð til við inngönguna á Evrópska efnahagssvæðið árið 1994, með viðamikilli einkavæðingu fjármálakerfisins og fleytingu krónunnar árið 2001. Við sjáum það nú að þessi kokteill gekk ekki upp. Og getur ekki gengið upp. Enda hafa ríki af okkar stærðargráðu ekki reynt annað eins. Aðeins milljónaríki halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli á frjálsu floti á alþjóðlegum markaði. Slíkt fyrirkomulag veldur enda viðvarandi kerfisáhættu hjá smærri ríkjum. Því er á engan hátt trúverðugt að afnema gjaldeyrishöft án þess að skipta alfarið um peningamálastefnu og í raun um gjaldmiðil.

Snjóhengjan ekki meginvandinn

Íslenska krónan var aðeins á frjálsu floti í átta ár áður en hún féll á hliðina og var lögð í öndunarvél gjaldeyrishafta. Sem á hverjum degi hola hagkerfið að innan. Síðast þegar þetta gerðist, árið 1930, vorum við föst í slíkum höftum í nálega sjö áratugi. Fátt bendir til þess að vandinn sé minni nú. Gáið að því að þá var engin snjóhengja. Þó svo að snjóhengjan illvíga bæti hreint ekki úr skák þá er hún ekki grundvöllur vandans. Og jafnvel þótt einstaklega vel takist til við að vinda ofan af erlendum eignum þá er kerfisgallinn áfram óleystur.

Viðbótarvandinn

Þegar litið er ofan í rót íslensks efnahagslífs sést að við lifum á því að selja Evrópubúum fisk – þrír fjórðu hlutar utanríkisviðskipta eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Því er aðildin að innri markaðinum efnahagsleg nauðsyn. Viðbótarvandinn er þó sá að við uppfyllum ekki lengur kröfuna um frjálsa för fjármagns. Um leið er ómögulegt að aflétta gjaldeyrishöftum án mun tryggari varna en við höfum sjálf yfir að ráða. Óvissan sem nú er komin upp og endurspeglast í skýrslum erlendra aðila um íslenskan efnahag er af þessum völdum.

Síðasta ríkisstjórn hafði þá stefnu að leysa gjaldmiðilsvandann með upptöku evru eftir inngöngu í ESB. Við það færu gjaldeyrishöftin um leið og gengisáhætta hyrfi. Þeirri leið var hafnað í liðnum þingkosningum og því stendur upp á nýja ríkisstjórn að finna aðra leið. Aðeins tvær leiðir virðast nú færar: Annaðhvort að fjötra fjármálafyrirtækin við mun stífara regluverk en annars staðar þekkist og halda þeim við aðeins innlenda starfsemi eða að semja við annað ríki um upptöku gjaldmiðils þess með beinum bakstuðningi viðkomandi seðlabanka.

Hingað til hafa aðeins sjónhverfingamenn bent á aðrar leiðir. Hvorug þessara leiða er þó greiðfær. Kyrrstaða er ekki kostur. Hún væri enda ávísun á mun lakari lífskjör en fólk í þessu landi mun sætta sig við. Áskorunin fram undan er að takast á við þennan vanda af alvöru. Stjórnmálamenn allra flokka þurfa því að láta af efnahagslegum sjónhverfingum sem engu skila nema blekkingu.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.