Viðskipti innlent

Kaupmaðurinn á horninu sem varð hótelmógúll

Lovísa Eiríksdóttir skrifar
Ólafur Torfason, eigandi Íslandshótela, hefur stýrt hótelum í landinu í 25 ár.
Ólafur Torfason, eigandi Íslandshótela, hefur stýrt hótelum í landinu í 25 ár. Mynd/GVA
„Í öðrum hverjum Íslendingi blundar genetísk hvöt til að þjónusta til borðs og sængur, sem stafar af fornum siðum,“ segir Ólafur Torfason athafnamaður, oftast kenndur við hið víðfræga Grand Hótel Reykjavík.

Ólafur Torfason er eigandi Íslandshótela og einn umsvifamesti hótelrekandi á landinu sem er hvergi nær hættur að auka hlut sinn á markaði.

Hann á og rekur þrettán hótel víðs vegar um landið, vinnur að því að opna stærsta hótel á Íslandi við Höfðatorg og hefur nú fest kaup á Blómavalsreitnum svokallaða, þar sem hann hyggst opna fleiri hótelrými og byggja upp ráðstefnuaðstöðu fyrir erlenda sem innlenda gesti.

„Ég hef ávallt horft öfundaraugum á þessa lóð og það eru gríðarleg tækifæri sem leynast í öllu plássinu þar,“ segir Ólafur.

Blæs á umræðu um offramboð á hótelrýmum

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um sprengingu í hótelrekstri á Íslandi og að offramboð verði á hótelrýmum á næstu árum miðað við umfangsmiklar áætlanir í þeim efnum.

Ólafur blæs hins vegar á slíkar fullyrðingar. „Ég er frekar hræddur um að ferðamennirnir komi að lokuðum dyrum á næsta ári þegar uppbyggingin er enn í vinnslu,“ segir Ólafur, sem lítur björtum augum á framtíð ferðaþjónustunnar en fjárfesting hans við Höfðatorg nemur um 700 milljónum.

„Við gerðum samning um hótelið á Höfðatorgi árið 2009 þegar menn voru farnir að hafa trú á markaðnum á ný, eftir hrunið mikla. Nú höfum við ákveðið að láta slag standa og opna stærsta hótel á Íslandi,“ segir Ólafur og bætir við að það hafi verið nauðsynlegt fyrir Fosshótel-deildina, sem Ólafur á og rekur víða um land, að auka við gistirými sín í Reykjavík.

„Við rekum mikið af hótelum úti á landi sem loka mörg yfir vetrartímann. Nýja hótelið á Höfðatorgi á eftir að veita rekstrinum meira jafnvægi yfir allt árið.“

Var kaupmaðurinn á horninu

Þótt Ólafur hafi byrjað snemma í hótelrekstri hóf hann starfsferil sinn sem kaupmaðurinn á horninu í miðbæ Reykjavíkur, þar sem hann seldi borgarbúum matvöru og drykk. 

„Ég er fæddur matvörukaupmaður og hafa allir mínir forfeður gegnt því samfélagslega hlutverki,“ segir Ólafur sem keypti litlu matvörubúðina Þingholt á Grundarstíg af föður sínum þegar hann var rétt um tvítugt eða árið 1972.

Á þeim tíma hófst athafnamennska Ólafs, sem í kjölfarið jók umsvif sín í verslunargeiranum. 

Hann byggði upp Kaupgarð í Kópavogi aðeins 25 ára gamall ásamt því að byggja upp verslunar- og atvinnuhúsnæði við Garðatorg í Garðabæ árin þar á eftir.

Það var svo fyrir algjöra tilviljun árið 1989 að Ólafur endaði í hótelrekstri. „Byggingarfélag sem ég var aðili að keypti lóð af Ölgerðinni við Rauðarárstíg og ætlaði að byggja þar íbúðir og atvinnuhúsnæði til leigu. 

Þetta var slæm fjárfesting og gekk erfiðlega að koma þessu húsnæði út,“ segir Ólafur sem þurfti því að ráðstafa lóðinni á annan hátt. 

„Þetta endaði með því að ég tók við allri torfunni og ákvað að reisa hótel í staðinn, sem nú er Hótel Reykjavík. Það var þá sem ævintýrið byrjaði.“

Umsvif Ólafs í íslensku samfélagi hafa aldrei verið meiri en nú.Mynd/GVA
Fjármagnaði rekstur með leigu

Eftir að Hótel Reykjavík tók til starfa árið 1992 hefur hlutur Ólafs í hótelrekstri á Íslandi stækkað jafnt og þétt. Hann leigði út atvinnu- og verslunarhúsnæði sitt til þess að fjármagna hótelrekstur. 

„Ég náði að fjármagna fyrsta hótelið með harmkvælum og þetta var erfið fæðing,“ segir Ólafur og útskýrir að þátttaka hans í atvinnulífinu hafi ekki alltaf verið upp á við. „Verktakabransinn er ansi köflóttur, en ég hef unað mér vel í hótelrekstrinum.“

Árið 1994 keyptu Ólafur og fleiri af Íslandsbanka hótelið Holiday Inn, sem í dag er Grand Hótel Reykjavík. „Holiday Inn var komið að fótum fram með þann rekstur og við gerðum því tilboð í hótelið,“ segir Ólafur en hótelið hóf rekstur í mars árið 1995 eftir einhverjar endurbætur. 

Grand Hótel hefur eftir það stækkað ört og er í dag stórt ráðstefnu- og gistihótel með rúmlega 300 herbergjum. „Stækkun og hönnun á Grand Hóteli tók töluverðan tíma og því ákváðum við að hefja rekstur á hóteli við Aðalstræti 16 þegar tækifæri bauðst. Fyrr er varði var ég allt í einu farinn að reka þrjú hótel á höfuðborgarsvæðinu.“

Ólafur hélt áfram að auka umsvif sín á markaðnum og árið 2008 ákvað hann að festa kaup á meirihluta í Fosshótelkeðjunni og hóf þar með að bjóða upp á ferðaþjónustu víða um landið.

„Ég hef alltaf haft mikla trú á ferðaþjónustu á Íslandi og það hefur aldrei hvarflað að mér að gefast upp.“

Fékk þrjá milljarða afskrifaða

Þegar hrunið skall á, árið 2008, lenti Ólafur í hremmingum þegar erlend lán fyrirtækja í hans eigu hækkuðu úr öllu valdi á skömmum tíma.

„Lánin stökkbreyttust og í framhaldi af því fengu þessi fyrirtæki okkar þá úrlausn sem í boði var á þeim tíma og þurfti til að fyrirtækin gætu starfað eðlilega.“ 

Í kjölfarið fengu fyrirtæki i eigu Ólafs afskrifaða þrjá milljarða króna, sem hefur vakið talsverða athygli nú þegar hann er orðinn umsvifameiri í viðskiptalífinu. 

„Bankinn setti það sem skilyrði að ég legði öll mín rekstrarfélög, sem aldrei höfðu skuldað neitt, í eitt félag, Íslandshótel hf., sem myndi síðan þjónusta öll þau lán sem á mér hvíldu. Á undanförnum tveimur til þremur árum hefur reksturinn hins vegar gengið mjög vel og við erum að notfæra okkur gott gengi til að endurbæta gamlar einingar og bæta við þjónustuna.“

Varð stúdent á fertugsaldri

Ólafur segist alltaf hafa verið með samviskubit yfir að hafa ekki gengið menntaveginn. „Ég ákvað að skrá mig í Fjölbrautaskólann í Garðabæ á gamals aldri og útskrifaðist sem stúdent þaðan þegar ég var 37 ára gamall.“ 



Ólafur skráði sig í framhaldinu í hagfræði og mannfræði við Háskóla Íslands þar sem nýr draumur hans var að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum að námi loknu. 

„Ég ætlaði ásamt starfinu að leigja út verslunarmiðstöðvar mínar hér heima til þess að safna í lífeyri,“ segir Ólafur en bygginga- og verslunarreksturinn kallaði. „Á þessum tíma gekk byggingarfélaginu mínu illa og ég þurfti að einbeita mér að því til að laga stöðuna. Ég var byrjaður að bjóða stefnuvottum í mat þar sem þeir héngu fyrir utan dyrnar hjá mér flest kvöld.“ 

Ólafur segir að með því hafi örlög sín verið ráðin. „Ég hafði ekkert val um að gefast upp. Þar sem ég var ekki orðinn hagfræðiþenkjandi mannfræðingur leitaði ég frekar lausna á mínum málum sem enduðu svo vel.“

Nýtur sín best í vinnunni

Ólafur er nú með 700 manns í vinnu úti um allt land og horfir jákvæður til framtíðar. „Í versluninni á Grundarstíg var ég með tvær stúlkur í vinnu og hefur starfsmannafjöldinn aukist umtalsvert síðan þá."

Ólafur vinnur nú sem stjórnarformaður Íslandshótela og heldur utan um alla starfsemi félagsins. Að sögn Ólafs er hann hvorki þreyttur né móður. „Mér þykir gott að vinna og hef alltaf notið mín best þar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×