Skoðun

Yfirlýsingar Þorbjargar

Frá degi til dags skrifar
Borgarfulltrúinn Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir viðurkennir í viðtali við Nýtt líf að sjálfstæðismenn hafi notfært sér veikindi Ólafs F. Magnússonar í ársbyrjun 2008 til að komast til valda. Hún kveðst sjá mjög eftir því, en þau hafi bara verið svo svekkt að missa meirihlutann eftir REI-málið, að ósekju að þeim fannst, að þau hafi verið til í að gera hvað sem er til að komast aftur til valda. Þetta eru ótrúlegar yfirlýsingar hjá Þorbjörgu Helgu, sem lýsir því reyndar líka yfir í viðtalinu að ef hún haldi áfram í pólitík þá stefni hún á oddvitasæti flokksins í borginni.

Er henni vært?

Það má hins vegar spyrja hvort það geti mögulega verið að Þorbjörg Helga ætli að halda áfram, eftir að hafa ljóstrað upp um þátttöku sína í þessum kollektíva dómgreindarbresti fyrir hálfum áratug, sem hún lýsir sjálf með orðunum „misnotkun á valdi“. Einhvers staðar mundi fólk sem viðurkenndi að hafa komið veikum manni til valda í eigin þágu einfaldlega snúa sér að öðru. En Íslendingar eru reyndar mjög fljótir að gleyma.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Fyrir neðan allar hellur

Erfiðlega gekk að fá félaga Þorbjargar Helgu úr borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna til að tjá sig um fullyrðingar hennar í gær. Sá eini sem það gerði var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sem sendi frá sér yfirlýsingu og skilur ekkert í Þorbjörgu, finnst þau „dapurleg“ og „fyrir neðan allar hellur“, sakar hana um „ímyndanir“ og fleira í þeim dúr. Vilhjálmur segir samstarf hans og Þorbjargar Helgu hafa verið með ágætum, „þótt vissulega hafi borið skugga á það samstarf, sem leiddi til 100 daga meirihlutans í borgarstjórn“. Vilhjálmur er greinilega ekki búinn að gleyma sms-skeyti Þorbjargar Helgu til borgarfulltrúa annarra flokka haustið 2007, sem í stóð: „Til í allt, án Villa“. 

stigur@frettabladid.is




Skoðun

Sjá meira


×