Skoðun

Tilgangurinn helgar meðalið!

Anna Berg Samúelsdóttir skrifar

Refa- og minkaveiðar eru hitamál á Íslandi. Báðar tegundirnar eru sagðar skaðvaldar í íslensku vistkerfi, skaði t.d. fuglalíf. Kröfur um útrýmingu minks eða minnkun á stofnstærð refs er ekki megininntak þessarar greinar heldur veiðiaðferðirnar sem tíðkast hérlendis og siðferði þeirra.

Veiðin

Skoðum aðstæður nágranna okkar Dana, þeir hafa líkt og við bæði ref og mink í vistkerfi sínu. Barátta þeirra gegn fjölgun minksins er líkt og hér mjög mikilvæg og síðustu ár hafa þeir verið með verkefni er kallast „Minkbekæmpelsen1“ eða baráttan við minkinn.

En það er skýrt í danskri löggjöf að við veiðar skulu minkar fá skjótan og sem sársaukaminnstan dauða. Þeir sem ganga til veiða með deyðandi vopn líkt og skotvopn skulu hafa þreytt veiðipróf, skriflegt og verklegt. Noti danskur veiðimaður gildru til veiða verður gildran að vera þannig útbúin að skepnan veiðist lifandi. Fari rangt dýr í gildruna er einfalt að sleppa því aftur út í náttúruna. Dauðagildrur á borð við dýraboga og drekkingargildrur eru með öllu bannaðar hjá Dönum. Ein undantekning frá reglunni er felligildran, nýtt af fagfólki.

Engar hæfniskröfur eru gerðar til minka- og refaveiðimanna hérlendis, það eina sem þeir þurfa til veiðanna er veiðikort og skotvopnaleyfi, noti þeir slíkt. Tegundir leyfðra veiðigildra hérlendis eru t.d fótbogi og dauðagildrur3. Dauðagildrur geta t.d. verið drekkingargildrur (minkasíur) og dýrabogar. Skepnur er lenda í fyrrgreindum gildrum ýmist drepast strax eða festast. Drepist dýrið ekki heldur festist, veldur það mikilli þjáningu fyrir skepnuna á meðan dauðastríðinu stendur. Einnig geta önnur dýr lent í gildrunum. Íslensk reglugerð um refa- og minkaveiðar segir að drepa skuli dýrið á sem skjótvirkastan hátt, en það getur reynst erfitt samkvæmt ofantöldu. Rétt er að taka fram að notkun á fótbogagildrum á refaveiðum á einungis við um yrðlinga og að skylt er að hafa umsjón með bogunum.

Óargadýr drepur

Í umræðunni í dag er minkur sagður skepna sem engu eiri, drepi bara til að drepa. Hagsmunaðilar krefjast þess að fá leyfi til þess að verja sig og sín svæði fyrir ágangi minks og refs, það er skiljanlegt. En er það virkilega þannig að tilgangurinn helgi meðalið og að við getum leyft okkur að drepa skepnurnar með hvaða tólum og tækjum sem við viljum? Er réttlætanlegt að drepa skepnu með bogagildru eða drekkja henni? Hver eru siðferðilegu rökin sem réttlæta að drepa skepnu á kvalafullan hátt? Skipir það kannski engu máli hvernig minkur eða refur er drepinn, bara að dýrið drepist, því það er hvort sem er að okkar mati grimmt og óvægið? Er það réttlætingin?

Maðurinn er talinn vera siðferðisvera og einn af grunneiginleikum siðferðis er skynsemi. Dýr eru ekki talin hafa siðferðisvitund heldur skynvit og frumhvöt. Samkvæmt þessu þá er ekki réttlætanlegt að drepa dýr á kvalafullan hátt þrátt fyrir að við teljum rándýrin, sem drepa skal, vera grimm og óvægin. Í reglugerðum um slátrun dýra eiga dýr rétt á því að vera aflífuð með sómsamlegum hætti. Á það ekki líka við um villt dýr?

Til að stöðva illa meðferð á dýrum þarf góða löggjöf. Núverandi lög hamla ekki drekkingum á mink og það gera nýju lögin (nr. 55/2013) ekki heldur sem er umhugsunarvert.

Heimildir: 1. Naturstyrelsen, á.á. Minkbekæmpelsen. Skoðað á vef 23.09.2012: http://www.naturstyrelsen.dk/Naturbeskyttelse/invasivearter/Myndighed/Minkprojekt/ 2. Bekendtgørelse om vildtskader nr. 259/2011 3. Reglugerð um refa- og minkaveiðar nr. 437/1995.




Skoðun

Sjá meira


×