Skoðun

Þjónn hugsjóna

Erna Reynisdóttir skrifar

Hugmyndafræðin um þjónandi forystu er ekki ný af nálinni. Hún sameinar margar ólíkar stefnur en viljinn til að þjóna og innri styrkur eru meginstoðir þessara fræða. Áhugavert er að skoða hversu mikilvæg þjónandi forysta er þeim sem taka að sér trúnaðarstörf í félagasamtökum.

Félagasamtök geta verið af margvíslegum toga. Undir þau flokkast t.d. íþróttafélög, mannúðarsamtök, stjórnmálaflokkar, góðgerðarfélög og skátar. Leiðtogar félagasamtaka eiga það yfirleitt sameiginlegt að vera sterkir einstaklingar og með brennandi áhuga á viðfangsefninu. En dugar það til? Samkvæmt Robert Greenleaf, upphafsmanni þjónandi forystu, þarf góður leiðtogi að líta á sjálfan sig fyrst og fremst sem þjón og síðan sem leiðtoga. Leiðtoginn er þjónn félagsmanna og/eða starfsfólks og þjónn sameiginlegra hugmynda og hugsjóna.

Fer það saman að vera sterkur einstaklingur og að vera þjónn? Svarið er já því sterkur leiðtogi þekkir sjálfan sig og sína styrkleika og veikleika. Hann hefur kraft til að virkja styrkleika sína og þor til að viðurkenna veikleika sína. Sterkur leiðtogi hefur yfirsýn, teflir saman ólíkum sjónarmiðum og hvetur til gagnrýnnar hugsunar. Hann hlustar á hugmyndir annarra af áhuga og einlægni og kann að sýna auðmýkt án þess að missa virðingu. Hann er opinn fyrir tækifærum og möguleikum, hlustar og ígrundar. Þannig er þjónandi leiðtogi.

Hagsmunir heildarinnar

Einstaklingar sem bjóða sig fram í trúnaðarstörf í félagasamtökum, s.s. formennsku, stjórnir eða nefndir, hafa oftar en ekki þessa eiginleika og þörf þeirra til að láta gott af sér leiða er sterk. Þeir eru drifnir áfram af áhuga á málefninu og leggja oft og tíðum mikið á sig til að árangur náist. Þeir setja hagsmuni heildarinnar framar sínum persónulegum hagsmunum. Fæstir þjónandi leiðtogar vita sjálfir að þeir myndu flokkast sem slíkir enda eðli þeirra að vera með athyglina á málefninu frekar en á þeim sjálfum. Hæfni í mannlegum samskiptum er því eiginleiki sem þjónandi leiðtogi hefur tileinkað sér og þar spilar hæfileikinn til virkrar hlustunar ekki minna hlutverk en hæfileikinn til að tjá sig.

Föstudaginn 14. júní verður haldin alþjóðleg ráðstefna um þjónandi forystu í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Yfirskrift ráðstefnunnar er Menntun – Sköpun og samfélag. Vil ég hvetja sérstaklega þá sem starfa í hvers kyns félagasamtökum til að sækja ráðstefnuna. Hugmyndafræði þjónandi forystu á erindi við svo til alla. En fyrir þá sem starfa í félagasamtökum getur verið einstaklega áhugavert að kynna sér hana og styrkja sig í þeim eiginleikum sem þarf til að ná árangri í samvinnu og samskiptum og þar með vinna sem best að hugsjónum heildarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×