Innlent

Deila um Loft í 101

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Loftið Barinn er í Austurstræti. Lögfræðingur Loftsins segir að ekki standi til að skipta um nafn.
Loftið Barinn er í Austurstræti. Lögfræðingur Loftsins segir að ekki standi til að skipta um nafn.

„Það liggur fyrir að við erum með einkaleyfi á vörumerkinu Loft og það stendur. Við erum ekki búin að ákveða hversu hart við göngum fram til að sækja rétt okkar en við viljum eðli málsins samkvæmt halda nafninu fyrir okkur,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfugla í Reykjavík sem eiga Loft Hostel í Bankastræti. Farfuglaheimilið opnaði fyrir skömmu og hefur að sögn Sigríðar einkarétt á nafninu „Loft“ innan veitingageirans.

Í miðborg Reykjavíkur eru tveir aðrir staðir með „Loft“ í nafni sínu, það eru barinn Loftið við Austurstræti og menningarstofan Harbour Loft í Hafnarstræti, sem er í eigu Valgeirs Guðjónssonar tónlistarmanns og eiginkonu hans, Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur. Þau vildu ekki tjá sig um málið að öðru leyti en að þeim þætti krafa farfuglaheimilisins fáránleg og ekki stæði til að breyta nafni staðarins. Steinbergur Finnsson er lögmaður eigenda Loftsins.

Hann segir einnig að krafan sé furðuleg og tæplega svaraverð. Loftið hyggist ekki skipta um nafn. „Það eru engin rök sem gætu réttlætt þessar hugmyndir þeirra. Þetta er væntanlega gert á grundvelli ruglingshættu en Loft og Loftið eru ekki einu sinni sama orðið. Hvað eru þau hrædd við, að fólk sem ætli að gista hjá þeim komi óvart og fái sér kokkteil hjá Loftinu í staðinn? Ég skil eiginlega ekkert í þessu,“ segir Steinbergur.

Einkaleyfi eru gerð til að vernda tæknilega útfærslu á hugmyndum, búnaði og afurðum en einnig aðferðum eða notkun þeirra. Með einkaleyfi frá Einkaleyfastofu er hægt að vernda uppfinningar í allt að 20 ár. Einkaleyfaréttur gefur eiganda rétt til þess að banna öðrum að framleiða, flytja inn og selja uppfinningu sem vernduð er með einkaleyfi.

Sigríður segir það ekki ósanngjarna kröfu að Loftið og Harbour Loft breyti nafni sínu. „Miðbærinn er lítill og við megum ekki rugla kúnnann.

Það er ekki að ástæðulausu að við sóttum um þetta á sínum tíma og við höfum gert hlutaðeigandi grein fyrir málum. Því hefur ekki verið svarað svo nú könnum við stöðu okkar gagnvart þeim,“ segir Sigríður. 

Farfuglaheimilið Loft Hostel var opnað fyrir skömmu og á rétt á nafninu Loft.

.

Harbour Loft er menningarstofa í eigu hjónanna Valgeirs Guðjónssonar og Ástu Kristrúnar Ragnarsdóttur.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×