Skoðun

Hver ber ábyrgðina?

Ólafur Hallgrímsson skrifar
Lífríkið í Lagarfljóti er að deyja út. Ekki kemur það þeim beinlínis á óvart sem vöruðu við afleiðingum Kárahnjúkavirkjunar. Öllum, sem af því vildu vita, mátti vera ljóst að það að hleypa vatninu úr Jökulsá á Dal austur í Lagarfljót hlyti að hafa ófyrirséðar afleiðingar í för með sér og breyta ásýnd fljótsins á marga vegu, hækka vatnsborð með tilheyrandi rofi á bökkum, litur þess myndi breytast verulega með auknum svifaur samfara kólnun, sem hefði í för með sér versnandi lífsskilyrði í fljótinu. Nú er þetta að koma í ljós.

Nánast öll viðvörunarorð okkar andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar eru að rætast. Það er verið að eyðileggja Lagarfljót. Það virðist hafa tekið skemmri tíma en vænta mátti, eða aðeins hálfan áratug. Vanhæfir pólitíkusar réðu för í þessu óheillamáli. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar tók ákvörðun um virkjunina, og ákvörðunin var dyggilega studd af Landsvirkjunarforstjóranum Friðrik Sophusssyni.

Allar viðvaranir vísindamanna voru hunsaðar, t.d. viðvaranir Helga Hallgrímssonar sem gjörþekkir fljótið og hefur skrifað um það merka bók (2005), þar sem hann varaði m.a. sterklega við vatnaflutningunum. Á slíka menn var að sjálfsögðu ekki hlustað né aðra þá sem gagnrýndu virkjanaáformin. Endapunktinn setti svo „umhverfisráðherra“ Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, sem í árslok 2001 sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar, sem lagðist eindregið gegn virkjuninni vegna „óafturkræfra umhverfisáhrifa“. Ábyrgð hennar hlýtur því að teljast mikil.

Nú standa menn frammi fyrir gerðum hlut og afleiðingarnar að koma í ljós. Afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar verða sýnilegri á Héraði með hverju árinu sem líður. Lagarfljót er gjörbreytt og lífríki þess hnignar, rof og landbrot við Fljótið, Jökulsá og Keldá í Fljótsdal hefur verið umturnað ásamt fögrum fossum. Farið er að bera á sandfoki úr aurum Jökulsár á Dal, í Hróarstungu sem nú eru orðnir þurrir stærstan hluta ársins. Trúað gæti ég að margir landeigendur við Lagarfljót séu áhyggjufullir þessa dagana. Gunnar Jónsson á Egilsstöðum, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, segir í Fréttablaðinu nýlega: „Lífríkið er nánast búið í Lagarfljóti“.

Beittu valdi

Vissu menn ekki, hvað þeir voru að gera? Þau Davíð, Halldór, Valgerður og Siv vissu hvað þau voru að gera. Þau hunsuðu viðvaranir og beittu valdi sínu, voru ákveðin strax í upphafi að fórna Lagarfljóti fyrir álver á Reyðarfirði. Og fjölmargir Austfirðingar fylgdu þeim að málum. Það var fórnarkostnaðurinn, sem menn töldu réttlætanlegan vegna þessarar framkvæmdar, sem efla átti atvinnulíf á Austurlandi, sem hefur þó ekki gerst nema að litlu leyti. Viðbrögð Sivjar Friðleifsdóttur nú eru með ólíkindum, þar örlar hvorki á iðrun né afsökun, þótt skömmin sé orðin öllum ljós. Hún telur, að stjórnvöld myndu fara eins að í dag, kæmi slík staða upp. Líklega er það rétt hjá henni, a.m.k. ef Framsókn ætti sæti í ríkisstjórn. Hver ber ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun, var það Alþingi og ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar, eða var það Landsvirkjun? Spyr sá sem ekki veit. Búum við ekki í réttarríki, eða er það þannig, eins og oft hefur tíðkast hér á landi, að enginn beri ábyrgð á neinu, þegar upp er staðið, sama hvaða mistök eru gerð.

Er ósanngjarnt, að þeir sem stóðu fyrir þessu skemmdarverki sæti ábyrgð? Eða er þetta kannski verkefni Landsdóms? Við sem alin erum upp á bökkum Lagarfljóts horfum með sorg í hjarta til þess hvernig þetta fagra stöðuvatn hefur verið leikið, sjálf lífæð Héraðsins. Það er þyngra en tárum taki. Dapurlegast er þó til þess að vita, að Héraðsbúar sjálfir skuli eiga þar drjúgan hlut að máli. En við það verða þeir líklega að búa.




Skoðun

Sjá meira


×