Skoðun

Gleðilegan Fjölmenningardag!

Margrét Sverrisdóttir skrifar
Í dag, laugardaginn 11. maí, er Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Markmiðið með hátíðarhöldunum er að fagna þeirri fjölbreyttu menningu sem borgarsamfélagið býður upp á og hlutverk fjölmenningardagsins er öðru fremur að fagna borgarbúum af ólíkum uppruna sem eiga fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn. Samfélag og menning eru síbreytileg og þróast í takt við tímann og íslenskt samfélag og innflytjendur mætast með samtakamætti og gleði í þessum hátíðarhöldum.

Fjöldi sjálfboðaliða

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar ásamt fulltrúum úr fjölmenningarráði hafa sinnt undirbúningi Fjölmenningardagsins af miklum krafti ásamt fjölda sjálfboðaliða. Fjölmenningardagurinn hefur öðlast sess í hugum borgarbúa og ár frá ári hefur þátttakan aukist í hátíðahöldunum. Í ár er metþátttaka á markaðinum sem haldinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem sýnir hversu mikill áhugi er meðal borgarbúa að kynna ólíka menningarheima með ýmsum varningi og matargerð. Íbúar klæðast skrautlegum búningum og borgin iðar af lífi.

Markaður opinn öllum

Að venju hefst hátíðin með skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju að Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar verður markaður, öllum opinn, þar sem kynnt verður handverk, hönnun og matur frá ýmsum löndum. Skemmtidagskrá verður í næsta húsi, Tjarnarbíói og afrískir tónleikar í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, þar sem hljómsveitin The Bangoura Band leikur fyrir dansi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Fyrir hönd mannréttindaráðs Reykjavíkur hvet ég alla borgarbúa til að taka virkan þátt í hátíðinni og njóta alls þess sem hún hefur upp á að bjóða.




Skoðun

Sjá meira


×