Innlent

Húsavík fyrsti kostur fyrir hvalabeinagrind

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frumhönnum dregur upp glæsilega mynd af Hvalasafninu á Húsavík.Mynd/Hvalasafnið Húsavík
Frumhönnum dregur upp glæsilega mynd af Hvalasafninu á Húsavík.Mynd/Hvalasafnið Húsavík
„Það er ekki á hendi Náttúrfræðistofnunar hvar beinagrindin verður heldur menntamálaráðuneytisins,“ segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vegna umræðunnar um framtíðarstaðsetningu beinagrindar úr steypireyði sem rak á land á Skaga 2010.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu gær vill bæjarráð Norðurþings að ráðherrann lýsi því yfir að beinagrindin verði á Hvalasafninu á Húsavík. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar sagði grindina hins vegar myndu enda á sýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni ef óskað væri eftir því. Annars væri Húsavík næsti kostur.

Katrín segir að þegar stjórnvöld hafi ákveðið að setja steypireyðina í það ferli að beinin yrðu þurrkuð hafi líka verið samþykkt annars vegar framlag og hins vegar að mennta- og menningarmálaráðherra myndi kanna hvort gera ætti samkomulag við Hvalasafnið á Húsavík um uppsetningu og varðveislu beinagrindarinnar. Þetta ætti ráðherrann að gera í samráði við Náttúrufræðistofnun, Náttúruminjasafnið og umhverfisráðuneytið. Það hafi ekkert breyst.

„Það verða væntanlega hafnar viðræður við Húsvíkinga þegar við sjáum fyrir endann á ferlinu með þurrkun beinanna. En það liggur líka fyrir að þeirra hugmyndir um hvernig þeir ætla að byggja yfir grindina eru á frumstigi. Það þarf líka að skýra fjármögnunina,“ segir ráðherrann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×