Innlent

Besti hlutinn verður felldur á tíu árum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur segir fellingu hæstu trjánna í Öskjuhlíð snúast um hagkvæmni í rekstri sumra flugvéla en ekki flugöryggi eins og gefið sé til kynna. "Þá er bara að orða það rétt: Hagkvæmni í rekstri versus kjarninn í útivistarsvæði Öskjuhlíðar,“ segir Helgi Gíslason. Fréttablaðið/Pjetur
Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur segir fellingu hæstu trjánna í Öskjuhlíð snúast um hagkvæmni í rekstri sumra flugvéla en ekki flugöryggi eins og gefið sé til kynna. "Þá er bara að orða það rétt: Hagkvæmni í rekstri versus kjarninn í útivistarsvæði Öskjuhlíðar,“ segir Helgi Gíslason. Fréttablaðið/Pjetur
„Þegar þessu er lokið eftir fimm til tíu ár hafa verið gjörfelldir sjö hektarar, sem er fimmtungur af skóginum í Öskjuhlíð og þar að auki elsti og besti hluti skógarins,“ segir Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, um fyrirhugaða fækkun trjáa í Öskjuhlíð.

„Það á að byrja á eitt til tvö hundruð hæstu trjánum strax og síðan að fella þau jafn óðum og þau vaxa upp í fluglínuna,“ segir Helgi, sem kveður rangt að nefna þetta grisjun.

Þá vísar Helgi í frásögn Ríkisútvarpsins um að Flugfélag Íslands hafi skilið eftir átta farþega og farangur til að flugtak væri mögulegt út af trjánum í Öskjuhlíð. „Nú er það svo að tré vaxa ekki að vetrarlagi. Þau hafa því ekki verið að hækka og skapa þessa hættu á undanförnum mánuðum. Fyrir þetta atvik, og reyndar eftir það einnig, hefur Flugfélagið getað tekið á loft í austurátt með fulllestaðar vélar án vandræða. Ástæður hljóta því að vera aðrar en hæð trjánna,“ segir hann.

Að sögn Helga eru gestakomur í Öskjuhlíð um 160 þúsund á ári. „Verði útivistarsvæðinu spillt og stór hluti þessa hóps hættir að nota útivistarsvæðið hvað er það þá á móti átta farþegum einu sinni sem ekki komast leiðar sinnar eða þurfa að bíða eftir hagstæðari vindátt?“ spyr Helgi Gíslason.

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, segir aðeins um lítinn hluta skógarins að tefla. Þótt hann hefði sjálfur valið slíku annan stað muni rjóður myndast og nýtast til útivistar og gamlar sjávarklappir verða aðgengilegri. „Við nálgumst þetta þannig að gera eins jákvæða hluti og hægt er úr þessu,“ segir garðyrkjustjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×