Skoðun

Ríkisstyrkir til fjármálafyrirtækja

Ólöf Guðný Valdimarsdóttir skrifar
Þegar grannt er skoðað eru vaxtabætur og húsaleigubætur opinberir styrkir til lánveitenda og fjármálastofnana sem fara í gegnum greiðslukerfi fólksins. Vaxtabætur eru þannig ríkisstyrkur til fjármálafyrirtækja svo þau geti haldið uppi óeðlilegum vöxtum og vaxtavöxtum. Húsaleigubætur eru einnig opinber styrkur til fjármálafyrirtækja svo eigendur leiguhúsnæðis geti greitt af himinháum lánum og viðhaldið hárri húsaleigu. Þessu þarf að breyta í þágu fólksins.

Afnám verðtryggingar af neytendalánum er fyrsta skrefið í að breyta lánaumhverfinu. Dögun vill aftengja vísitöluna og þar með afnema verðtryggingu af neytendalánum tafarlaust. Auðvaldið, sem stendur vörð um óbreytt fjármálakerfi, reynir að telja fólki trú um að þetta sé ekki hægt. Með afnámi verðtryggingar lækkar greiðslubyrði lána og þá þarf ríkið ekki að styrkja lánveitendur og fjármálastofnanir í formi bóta til lántakenda og getur nýtt peningana í þágu fólksins. Á síðasta ári greiddi ríkið 18 milljarða í formi vaxtaniðurgreiðslu til fjármálastofnana.

Hvers vegna ættu íslenskar fjölskyldur að sætta sig við verðtryggð neytendalán? Hvaða réttlæti er í því að fjölskyldum í landinu séu veitt lán í krónum en gert að greiða af þeim í verðtryggðum krónum, sem er allt annar gjaldmiðill, auk vaxta? Hvers vegna ætti húsnæðislán að hækka ef skattar hækka og fyrirtæki hækka vöru sína og þjónustu til fólksins? Og hvers vegna ættu vextir af lánum fjármálastofnana að vera niðurgreiddir af ríkinu?

Dögun vill skapa íslenskum fjölskyldum öruggt heimili og stofna húsaleigusamvinnufélög sem ekki eru hagnaðardrifin og leigja fjölskyldum húsnæði á sanngjörnu verði. Hvers vegna ætti líka fólk sem hefur misst allt sitt og hrakist út á leigumarkaðinn að borga meira í húsaleigu en það hafði EKKI efni á að borga af húsnæðislánum? Og hvers vegna ætti hið opinbera að styrkja hagnaðardrifin húsaleigufyrirtæki, sem nú eru að spretta upp, með húsaleigubótum svo þau geti haldið uppi himinhárri og ósanngjarnri húsaleigu?

Dögun vill ekki að fólk lifi í þágu fjármálastofnana og fjármálaspekúlanta heldur að fjármálakerfið sé fyrir fólkið. Stefna Dögunar miðast við að breyta samfélaginu og færa valdið frá fjármagninu til fólksins. Dögun vill réttlátt samfélag þar sem fólk getur lifað mannsæmandi lífi af laununum sínum og ríkið tryggir grunnþjónustu og aðstoð við þá sem eru veikir eða hafa orðið fyrir áföllum. Hagnaðardrifið húsnæðis- og lánakerfi og grunnþjónusta er í þágu auðvaldsins en ekki í þágu fólksins. Fólkið í landinu á að geta lifað mannsæmandi lífi af launum sínum og búið við þau lágmarksmannréttindi að eiga heimili og fá grunnþjónustu.

Dögun vill réttlæti, sanngirni og lýðræði. Saman getum við breytt þjóðfélaginu. Vertu með. X-T.




Skoðun

Sjá meira


×