Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme fer fram á Akureyri um helgina.
Hápunktur hátíðarinnar er hin svokallaða Big Jump-keppni sem verður í gilinu annað kvöld klukkan 21. Þar munu tuttugu efnilegir brettamenn keppa um Ak Extreme titilinn og hringinn.
Egill Tómasson, einn aðstandenda hátíðarinnar, segir keppendurna í ár vera á aldrinu átján til 37 ára.
„Eiríkur Helgason fer fyrir fjögurra manna dómnefnd. Hann er okkar fyrsti atvinnumaður í íþróttinni og væri sjálfur að keppa í Big Jump-keppninni ef hann væri ekki rifbeinsbrotinn," segir Egill.
Yngri bróðir Eiríks, Halldór Helgason, verður þó á meðal keppenda. „Halldór var meiddur í fyrra og sat þá í dómnefndinni. Þeir virðast skiptast á, bræðurnir."
Halldór sýnir ekki aðeins listir sínar á brettinu heldur þeytir einnig skífum í slagtogi við MC Gauta á Græna hattinum seinna um kvöldið. Þetta mun vera í fjórða sinn sem Halldór spreytir sig sem plötusnúður og að sögn Egils spilar hann allt frá dauðametal til teknó tónlistar.
Stökkpallurinn sem notaður verður í Big Jump-keppninni er sá stærsti til þessa og tók það fimmtán manna hóp fimm daga að smíða hann. Pallurinn verður svo fjarlægður strax að keppni lokinni.
Stærsti stökkpallurinn til þessa
Sara McMahon skrifar