Skoðun

Ný nálgun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki

Þorvarður Gunnarsson skrifar
Endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla felur í sér umfangsmikla og tímafreka vinnu sem reynist mörgum litlum og meðalstórum fyrirtækjum þungur baggi fjárhagslega, auk þess sem virði endurskoðunaráritunar fyrir slíka aðila er ekki alltaf augljóst.

Á síðustu misserum hafa gagnrýnisraddir lítilla og meðalstórra fyrirtækja sífellt orðið háværari varðandi þau stærðarmörk sem í gildi eru og skera úr um hvort ársreikningur fyrirtækis sé endurskoðunarskyldur eða ekki. Stærðarmörkin sem eru í gildi í dag eru í mörgum tilfellum óraunhæf og leggja kvaðir á minni fyrirtæki um nauðsyn þess að láta framkvæma ítarlega endurskoðun, þrátt fyrir að um lítinn og einfaldan rekstur sé að ræða.

Nýverið tóku ný lög gildi í Danmörku sem kveða á um að fyrirtæki innan ákveðinna stærðarmarka þurfi ekki að láta framkvæma hjá sér fulla endurskoðun, heldur er nóg fyrir þau að láta gera ítarlega könnun á ársreikningi sínum. Í nýju lögunum eru stærðarmörkin rýmkuð verulega frá því sem áður var en í þeim kemur fram að fyrirtæki með 12-50 starfsmenn, tekjur DKK 8-72 milljónir (ISK 184-1.656 milljónir) og eignir DKK 4-36 milljónir (ISK 92-828 milljónir) hafi rétt á að láta framkvæma ítarlega könnun í stað endurskoðunar.

Ítarleg könnun gefur ekki sömu fullvissu um áreiðanleika ársreikningsins og endurskoðun en hún gefur töluvert meiri vissu en kannaður ársreikningur. Þar sem eigandinn í litlum fyrirtækjum er oft og tíðum líka stjórnandi fyrirtækisins ætti ítarleg könnun í flestum tilfellum að vera næg til að hægt sé að treysta að upplýsingar í ársreikningi séu í samræmi við lög og viðeigandi reikningsskilaaðferðir.

Ákjósanlegt væri að fara sömu leið og farin var í Danmörku, þ.e. að hækka viðmið um lögboðna endurskoðun en gera fyrirtækjum sem ekki eru endurskoðunarskyld það skylt að ársreikningar þeirra séu vottaðir af endurskoðendum með ítarlegri könnun, sem skilgreind yrði í lögum um endurskoðendur. Samhliða þessu þyrfti að endurskoða stærðarmörk fyrir fyrirtæki sem hvorki þyrftu könnun eða endurskoðun. Stærðarviðmiðanir í Danmörku eiga að mörgu leyti vel við hérlendis en ljóst er að leiðir sem þessar kalla á breytingar á lögum um ársreikninga.




Skoðun

Sjá meira


×