Innlent

Fólk noti páskafríið í að kemba börnum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Svona líta kvikindin út fullvaxin.
Svona líta kvikindin út fullvaxin. Nordicphotos/getty
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur illa gengið að kveða niður höfuðlús í sumum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu í vetur. Í fyrradag var póstur sendur á foreldra barna í Vesturbæjarskóla um lús sem þar hefur stungið sér niður á ný.

„Lúsin er að taka sig upp í mörgum árgöngum," segir Ásdís Eckardt skólahjúkrunarfræðingur í bréfi til foreldra og biður þá að bregðast skjótt við með því að kemba og láta vita þegar lús kemur upp. Vísað er á leiðbeiningar um hvernig kljást á við lús á heimasíðu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, www.6h.is.

Dalla Jóhannsdóttir, formaður Foreldrafélags Vesturbæjarskóla, segir tilkynningar um lús hafa borist bréfleiðis ansi reglulega í vetur. Hún hvetur fólk til að bregðast við slíkum tilkynningum, vinna sjálft í málinu og kemba börnum sínum. Dalla segir það hins vegar snúa að foreldrum að leita börnum sínum lúsa. „Fólk verður að vinna í þessu sjálft að leita og kemba. Núna verður fólk bara að nota páskafríið í að kemba," segir hún og vonast til að í þetta sinn takist að útrýma lúsinni sem herjað hefur á skólann í vetur. „Það hefur verið sendur póstur ansi reglulega í vetur."

Ása St. Atladóttir, sýkingavarnahjúkrunarfræðingur á sóttvarnadeild Landlæknis, segir sölutölur lúsalyfja sýna að mjög mikið hafi verið um lús í vetur.

„Þetta hefur verið meira en í meðalári og svo sem engin sérstök skýring til á því," segir Ása. „Lúsin er náttúrulega viðvarandi og hverfur ekkert nema með mjög samstilltu átaki." Mælist hún til þess að fólk venji sig á að kemba hár barna reglulega, jafnvel einu sinni í viku, til að leita lúsa, jafnvel þótt engin tilkynning hafi borist um smit úr skóla.

„Höfuðlúsin er á meðal okkar og ef við viljum draga úr henni þarf að kemba markvisst."

Ása segir reynsluna hins vegar sýna að mjög misjafnt sé hvernig foreldrar bregðist við. „Þetta er heilmikið vesen og kannski nennir fólk þessu ekki."

Ása segir hægt að vinna á lúsinni bara með því að kemba, en það þurfi þá að gerast mjög markvisst í fjórtán daga. Flestir noti hins vegar líka lúsalyf sem fást í apóteki. „En þá meðferð þarf að endurtaka eftir viku."

Þegar lús kemur upp í skólum segir Ása hins vegar ljóst að ekkert megi út af bregða í aðgerðum til að losna við hana. „Upp getur komið að sessunautur barns í skóla eigi foreldra sem ekkert bregðast við lúsinni. Og þá þarf ekki annað en verið sé að vinna saman að verkefni og kollarnir að snertast, þá er viðkomandi aftur orðinn smitaður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×