Innlent

Vilja heimild fyrir 192 námsmannaíbúðir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Valsmenn vilja yfirbyggðan gervigrasvöll og námsmannaíbúðir á gamla keppnisvellinum.
Valsmenn vilja yfirbyggðan gervigrasvöll og námsmannaíbúðir á gamla keppnisvellinum.
Valsmenn hf. skoða nú hvort byggja megi 192 námsmannaíbúðir á gamla keppnisvelli Vals og nágrenni á Hlíðarenda.

Forvarsmenn Valsmanna hf. segjast í bréfi til skipulagsráðs hafa verið í nánu sambandi við forráðamenn Háskólans í Reykjavík um uppbyggingu námsmannaíbúða í nágrenni skólans.

„Rektor og hans fólk sýndu því mikinn áhuga og fram kom til dæmis brýn þörf þeirra fyrir íbúðir í námunda við háskólasvæðið, ekki síst fyrir þá fjölmörgu skiptinema sem sækja HR,“ segir í bréfi sem undirritað er af Brynjari Harðarsyni, framkvæmdastjóra Valsmanna hf., og Herði Gunnarssyni, formanni Knattspyrnufélagsins Vals.

Valsmenn hf. eiga margar lóðir á svæðinu en það er hins vegar knattspyrnufélagið sem á umrædda lóð. Þó að háskólamenn séu áhugasamir segir Hörður lóðina fyrst og fremst ætlaða undir yfirbyggðan grasvöll en menn hafi reyndar íbúðir í huga einnig.

Knattspyrnudeildin á því byggingarréttinn og honum fylgja miklir hagsmunir. „En fyrst og fremst göngum við erinda íþróttahagsmuna á svæðinu, það er knatthúsið og þörf þess sem ræður öllu öðru. „Nú erum við bara að finna út úr því hversu stórt þetta hús á að vera og þar með hversu mikill afgangur verður fyrir aðra starfsemi á lóðinni,“ segir Hörður Gunnarsson, formaður Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×