Innlent

Neytendur ósáttir við eindagabreytingu ÍLS

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
fréttablaðið/Vilhelm
Frá og með næstu mánaðamótum verður eindagi á lánum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) 4. hvers mánaðar, en ekki 15. eins og verið hefur. Eindaginn er því þremur dögum eftir gjalddaga.

Breytingin skilar ÍLS 80 milljónum króna í auknar tekjur. Sjóðurinn segir hins vegar að vaxtatap hvers lánþega verði aldrei meira en 150 krónur á ári. Þar er átt við tapaðar vaxtatekjur sem annars fengjust af því að hafa upphæðina lengur inni á reikningum greiðenda.

Kvartanir yfir málinu hafa borist inn á borð Neytendasamtakanna og stjórn þeirra mun fjalla um málið 20. þessa mánaðar.

„Auðvitað getur þetta haft erfiðleika í för með sér fyrir einhverja. Við teljum að þetta sé gert með mjög stuttum fyrirvara og hann hefði átt að vera lengri," segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Breytingin hefur þegar orðið og mun vera í gildi við afborganir um næstu mánaðamót.

„Engar kvaðir eru í lögum, reglugerðum eða á skuldabréfum sjóðsins, um það hversu mörgum dögum eftir gjalddaga eindaginn er," segir í tilkynningu frá ÍLS.

„Langt eindagatímabil var upphaflega til þess ætlað að veita mönnum svigrúm til þess að komast í banka til að greiða af húsnæðislánum sínum. Í dag greiða flestir rafrænt, ýmist með skuldfærslum eða í heimabanka, og því lítil rök fyrir löngu eindagatímabili."

Þá segir að stytting eindagatímabilsins sé liður í hagræðingaraðgerðum sjóðsins en stjórnvöld hafi gert kröfu um hagræðingu í rekstri hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×