Innlent

Stigvaxandi tekjur af mengunarsköttum frá hruni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Fjármála- og efnahagsráðherra segir hagrænum hvötum til að draga úr mengun beitt í takmörkuðum mæli hér á landi.
Fjármála- og efnahagsráðherra segir hagrænum hvötum til að draga úr mengun beitt í takmörkuðum mæli hér á landi. Fréttablaðið/Stefán
Tekjur ríkisins af sköttum og gjöldum tengdum mengun hafa aukist um sem nemur 15 prósentum frá hruni, uppreiknað miðað við verðlag síðasta árs. Að baki aukningunni eru tekjur af gjöldum á eldsneyti, vörugjöld af bensíni og olíuvörum og kolefnisgjald.

Tekjur af gjöldum á eldsneyti námu árið 2008 tæpum 19 milljörðum króna (á verðlagi ársins 2012) en voru í fyrra tæpir 22 milljarðar. Aukningin er 15,7 prósent. Þetta má lesa úr skriflegu svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokks. Uppreiknaðar tölur sýna líka að 2007 voru tekjur ríkisins af þessum tekjuliðum rétt tæpum milljarði meiri en 2012.

Á tímabilinu bættist líka við nýr tekjustofn þegar kolefnisgjald var tekið upp árið 2010.

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í svari sínu að ríkissjóður hafi á undanförnum árum ekki haft miklar tekjur sem rekja megi til mengunar. Stjórnvöld hafi ekki beitt hagrænum hvötum nema í takmörkuðum mæli til þess að draga úr álagi á umhverfið. Þess í stað hafi verið meiri áhersla á leið „boða og banna“ þar sem sett séu skilyrði fyrir efnainnihaldi með reglum. „Flest gjöld sem lögð eru á mengandi efni eru lögð á til að mæta þeim kostnaði sem förgun þeirra hefur í för með sér.“ Undantekning frá tekjuöflun á grundvelli mengunar sé síðan gjöld á jarðefnaeldsneyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×