Innlent

Starfsfólk fær 4,3 milljarða

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Umbun starfsfólks Landsbankans má rekja til uppgjörsins milli nýja og gamla Landsbankans frá 2009. Fréttablaðið/Valli
Umbun starfsfólks Landsbankans má rekja til uppgjörsins milli nýja og gamla Landsbankans frá 2009. Fréttablaðið/Valli
Starfsmenn Landsbankans munu eignast 1,9 prósenta hlut í bankanum miðað við stöðu svokallaðs skilyrts skuldabréfs í bókum hans. Miðað við innra virði hlutafjár Landsbankans er virði hlutarins 4,3 milljarðar króna. Það hefur farið stigvaxandi með auknum hagnaði bankans, en hann nam 25,5 milljörðum króna á síðasta ári. Komist erlendir sérfræðingar að því að skuldabréfið sé meira virði mun hlutur starfsmannanna hækka upp í tvö prósent og verða 4,5 milljarða króna virði. Þetta má lesa út úr nýbirtum ársreikningi Landsbankans.

Skilyrta skuldabréfið mun verða gefið út í lok marsmánaðar og þá mun skýrast hversu stóran hluta starfsmenn fá að eignast. Eftir útgáfu skuldabréfsins verður Landsbankinn nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, utan þess hlutar sem mun renna til starfsmanna. Hann verður þá eina fyrirtæki landsins í opinberri eigu sem umbunar starfsfólki sínu fyrir árangur í starfi með því að gefa því hlutafé.

Í desember 2009 var tilkynnt um uppgjör milli nýja og gamla Landsbankans. Í því fólst meðal annars að íslenska ríkið eignaðist 81,33 prósenta hlut í bankanum en þrotabúið hélt eftir afganginum. Sú breyting gat orðið á þeirri tilhögun að ef svokallað skilyrt skuldabréf yrði metið á 92 milljarða króna í lok árs 2012 myndi þrotabúið skila hlut sínum gegn útgáfu skuldabréfsins.

Sá hlutur átti þó ekki að renna að öllu leyti til ríkisins heldur var samið um að starfsmenn Landsbankans myndu fá tvö prósent af heildarhlutafé hans ef takmarkinu yrði náð og átti sá hlutur að mynda stofn væntanlegs kaupaukakerfis innan bankans.

Ekki liggur fyrir hversu mikið hver starfsmaður fær í sinn hlut þar sem bankinn hefur ekki kynnt útfærslu kaupaukakerfisins.

Hluturinn átti að vera umbun fyrir árangur starfsmanna við hámörkun á alls átján eignum sem mynda stofn skuldabréfsins. Ljóst er að sú innheimta hefur gengið vel því virði skuldabréfsins var bókfært á 26,5 milljarða króna í árslok 2010. Hefði það verið niðurstaðan hefði hlutur starfsmannanna verið 0,6 prósent.

Samkvæmt ársreikningi Landsbankans er virði bréfsins í lok síðasta árs 87,5 milljarðar króna. Þrotabúið metur það hins vegar á 92 milljarða króna og endanleg fjárhæð þess veltur á mati erlendra sérfræðinga á áðurnefndum eignum.

Eins og staðan er í dag munu starfsmennirnir því fá 1,9 til 2,0 prósenta hlut í bankanum. Skuldabréfið verður gefið út í síðasta lagi 31. mars. Það verður í evrum, ber fljótandi vexti og með lokagjalddaga í október 2018, tíu árum eftir fall gamla Landsbankans. Greiða verður ársfjórðungslegar greiðslur af því frá og með næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×