Innlent

Ráðuneyti sendir mann til Davíðs

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Davíð var handtekinn í Antalya á heimleið úr fríi á föstudaginn. Honum er gefið að sök að hafa ætlað að smygla fornmunum úr landinu.
Davíð var handtekinn í Antalya á heimleið úr fríi á föstudaginn. Honum er gefið að sök að hafa ætlað að smygla fornmunum úr landinu.
Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að senda íslenskan lögfræðing til Tyrklands til að afla upplýsinga og hjálpa Davíð Erni Bjarnasyni, sem hefur verið fastur í fangelsi í Antalya síðan á föstudag. Lögfræðingurinn fær vonandi að hitta Davíð á morgun.

„Hann kemur til með að útvega Davíð föt, nauðsynjar og pening og kanna hans mál,“ segir Ingibjörg Hafsteinsdóttir, móðir Davíðs. Hún segir að utanríkisráðuneytið sé að vinna mjög vel í máli hans en segir þennan tíma þó vera skelfilegan.

Enginn í fjölskyldu Davíðs hefur fengið að tala við hann síðustu daga, en Ingibjörg segist vita að hann sé í klefa með tveimur evrópskum mönnum, sem hafi verið hjálpsamir og góðir við hann.

Fyrir utan íslenska lögmanninn, sem vonast er til að hitti Davíð á morgun, hefur ræðismaður Íslands í Tyrklandi sent lögmann frá sér til Antalya. Hann kemur vonandi til Antalya í dag. Utanríkisráðuneytið segir að staðfest hafi verið að Davíð hafi fengið læknisskoðun og að í aðalatriðum ami ekkert að honum annað en að honum líði mjög illa í fangelsinu. Ekki hefur fengist staðfest hvenær fyrirtaka málsins fer fram, en vonast hefur verið til þess að það verði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×