Innlent

Myndavélar ekki á borði Persónuverndar

Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd
Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd
Persónuvernd hefur ekki tekið afstöðu til hugmynda Strætó bs. um að setja upp öryggismyndavélakerfi í strætisvagna borgarinnar við næstu reglubundnu endurnýjun vagnanna.

Þórður Sveinsson, staðgengill forstjóra Persónuverndar, sagðist í samtali við Fréttablaðið fyrst hafa fengið vitneskju um hugmyndir Strætó bs. um öryggismyndavélakerfi við lestur blaðsins á mánudag. Meta þurfi í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að viðhafa tiltekna vöktun.

„Eitt af því sem réttlætt getur vöktun er öryggissjónarmið en þá verður alltaf að gæta meðalhófs. Ef vöktun er á annað borð heimiluð þá gilda engu að síður ýmsar takmarkanir um hvernig henni skuli hagað og hvernig nota megi vöktunarefnið.“

Aðspurður hver metur hvort næg skilyrði séu uppfyllt til þess að réttlæta vöktun segir Þórður það á endanum vera hlutverk Persónuverndar en aðeins ef málið komi inn á hennar borð með einhverjum hætti, til dæmis með kvörtun. „En það er náttúrulega sá sem setur upp kerfið sem þarf að taka afstöðu til þess hvort það sé lögmætt, en það mat sætir síðan endurskoðun Persónuverndar ef á slíkt reynir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×