Innlent

Bjuggumst við að krókna í myrkrinu

Stígur Helgason skrifar
Þessa mynd tók vinkona stelpnanna frá veginum um kvöldið. Á henni sést glögglega hversu langt bíllinn hefur oltið.
Þessa mynd tók vinkona stelpnanna frá veginum um kvöldið. Á henni sést glögglega hversu langt bíllinn hefur oltið. Mynd/Andrea Rún Halldórsdóttir
"Ég man ekkert hvernig þetta gerðist," segir Sandra Karen Skjóldal, sem missti stjórn á bíl af gerðinni Nissan Micra í Öxnadal í fyrrakvöld með þeim afleiðingum að hann fór sex eða sjö veltur og staðnæmdist á hjólunum sextíu metrum utan vegar.

Hún kveðst ekki hafa fundið fyrir hálku við aksturinn en frétt af því eftir á að ísing hafi gert vart við sig á vegum um kvöldið. Hún muni þó eftir veltunni sjálfri.

"Ég fór bara hring eftir hring, beið eftir því að bíllinn hætti að velta og sá ekkert nema snjó allt í kring," segir Sandra, sem slapp ótrúlega vel úr slysinu, þökk sé beltinu sem hún hafði aldrei þessu vant spennt á sig. Sautján ára vinkona hennar er sömuleiðis nánast stráheil eftir byltuna.

"Ég bjóst ekki við að lifa þetta af," segir Sandra, sem segir þær vinkonurnar einfaldlega hafa oltið þegjandi og hljóðalaust með bílnum og beðið eftir því að hann mundi stöðvast.

"Við vorum alveg í þvílíku sjokki eftir þetta – sátum grenjandi í bílnum í korter, horfðum hvor á aðra og vissum ekki einu sinni hvað við áttum að segja. Svo fórum við að pæla í hvar hundurinn væri."

Stúlkurnar voru á leiðinni suður til Reykjavíkur, þar sem þær búa báðar, eftir skottúr til Akureyrar, og höfðu tekið að sér að flytja þangað border collie-hund fyrir ókunnuga konu. Hann hafði setið spakur í aftursætinu en þegar þær áttuðu sig í bílnum var hann hvergi sjáanlegur.

Sandra segist í raun hafa haft mestar áhyggjur af hundinum. "Ég var alveg brjáluð út af þessum hundi – vissi ekkert hvernig ég átti að vera – öskraði að ég hefði drepið hund af því að ég hélt að hann væri dauður einhvers staðar," segir hún. Hundurinn var enn ófundinn í gær en spor sáust í kringum bílinn sem bentu til þess að hann væri lífs.

Rúðurnar í bílnum höfðu brotnað og bíllinn hálffyllst af snjó. "Ég hringdi nokkrum sinnum í Neyðarlínuna en það hefur verið eitthvað að símanum mínum því að karlinn á línunni heyrði aldrei í mér. Það var enginn á leið fram hjá og niðamyrkur. Við bjuggumst við að verða þarna alla nóttina og krókna úr kulda," lýsir Sandra.

Loksins hafi hún þó náð í vinkonu sína í síma sem hafi hringt á hjálp og komið sjálf á staðinn.

Bíllinn er gjörónýtur og leiðir stúlknanna, sem vinna saman á Hjúkrunarheimilinu Skjóli, skildi í bili í gær. Vinkonan hélt til Reykjavíkur í faðm foreldra sinna en Sandra ætlaði að dvelja ögn lengur hjá mömmu sinni á Ólafsfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×