Innlent

Kolaportið stækkar og markaður úti við

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Bílastæðin við Tryggvagötuna munu færast upp á þak, samkvæmt tillögunum. Gangstéttin verður breikkuð og þar komið upp svæði fyrir útimarkað. „Þarna er jafn gott skjól fyrir norðanátt og á Austurvelli,“ segir Dagur B. Eggertsson.
Bílastæðin við Tryggvagötuna munu færast upp á þak, samkvæmt tillögunum. Gangstéttin verður breikkuð og þar komið upp svæði fyrir útimarkað. „Þarna er jafn gott skjól fyrir norðanátt og á Austurvelli,“ segir Dagur B. Eggertsson. Fréttablaðið/pjetur
Reykjavíkurborg og ríkið eru að ná saman um leigu borgarinnar á Kolaportshluta Tollhússins við Tryggvagötu. Gert er ráð fyrir því að borgin framleigi Kolaportinu svæði undir markað.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að ríkið muni óska eftir heimild til breytinga á húsinu. Settur verði einfaldur rampi upp á þak og þar komið fyrir bílastæðum. Þá verði norðurhlið hússins, sú sem að höfninni snýr, opnuð með gleri og rými Kolaportsins stækkað.

„Þá er verið að vinna að tillögum um breytingar Tryggvagötumegin. Við viljum breikka gangstéttina fyrir framan listaverk Gerðar Helgadóttur, þannig að þar myndist sólskinstorg sem hægt verði að nota sem markaðssvæði á sumrin.“

Dagur segir borgina hafa fundað með fjármálaráðherra, yfirmönnum Fasteigna ríkisins, tollstjóra og forsvarsmönnum Kolaportsins. Náðst hafi saman um meginlínurnar, búið sé að kynna tillögu að byggingarleyfisumsókn um breytingar á húsinu.

Gunnar Hákonarson, framkvæmdastjóri Kolaportsins, segir að samningar gangi ágætlega. „Ég vil hins vegar fá að sjá samning áður en ég segi endanlegt já.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×