Innlent

„Þurfum náttúrlega að ná í þennan mann“

Stígur Helgason skrifar
Maðurinn, sem er 46 ára, var límdur fastur í sæti sitt í flugvélinni eftir að hann ærðist, réðst á sessunaut sinn og hrópaði að vélin væri að farast.
Maðurinn, sem er 46 ára, var límdur fastur í sæti sitt í flugvélinni eftir að hann ærðist, réðst á sessunaut sinn og hrópaði að vélin væri að farast.
Lögreglan á Suðurnesjum bíður enn eftir upplýsingum frá Bandaríkjunum um handtöku íslenska flugdólgsins sem Icelandair kærði eftir að hann trylltist í flugvél á leið til New York í upphafi árs.

Maðurinn var handtekinn á John F. Kennedy-flugvelli en látinn laus fljótlega og raunar komið á spítala vegna áfengiseitrunar. Mynd af honum fór eins og eldur í sinu um internetið, prýddi forsíðu dagblaðsins New York Post, auk þess sem spjallþáttastjórnandinn David Letterman gerði óspart grín að honum.

„Staðan er sú að kæran liggur hér hjá okkur. Við höfum óskað eftir upplýsingum og gögnum frá Bandaríkjunum en höfum ekki fengið þau enn,“ segir Jóhannes Jensson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum. „Það er nú orðið svolítið síðan þannig að ég þarf kannski að fara að ýta á þetta.“

Jóhannes segir að þegar að því kemur muni þurfa að ræða við Íslendinginn. „Það hefur nú komið fram að hann búi á Barbados eða einhvers staðar. Ég veit svo sem ekki hvort hann heldur sig þar eða hvernig þetta er, en við þurfum náttúrlega að ná í þennan mann ef það á að verða úr þessu sakamál og fá hans hlið á málinu. Það getur vel verið að hann sé oft á ferðinni – ef eitthvert flugfélag vill flytja hann,“ segir Jóhannes. Ekki sé heimilt að yfirheyra sakborninga símleiðis.

Hámarksrefsing fyrir að ógna öryggi loftfars er sex ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×