Innlent

Tókst ekki að leysa Davíð úr haldi í gær

Stígur Helgason skrifar
Davíð situr í fangelsi í Tyrklandi en Þóra er á leið frá Svíþjóð til Íslands. Þau hafa ekki hugmynd um hvenær þau munu hittast aftur.
Davíð situr í fangelsi í Tyrklandi en Þóra er á leið frá Svíþjóð til Íslands. Þau hafa ekki hugmynd um hvenær þau munu hittast aftur.
Enn er alls óvíst hversu lengi Davíð Örn Bjarnason, 28 ára Íslendingur sem er grunaður um fornminjasmygl, þarf að dúsa í fangelsi í Tyrklandi. Fulltrúa aðalræðismanns Íslands mistókst að fá hann lausan þaðan í gær.

„Hann náði að hitta manninn og fékk fund með saksóknaraembættinu. Það var vonast til þess að það yrði einhver fyrirtaka í málinu í dag en það gekk ekki eftir,“ segir Pétur Ásgeirsson hjá utanríkisráðuneytinu, sem fylgist eins náið með málinu og honum er unnt í gegnum ræðismanninum í höfuðborginni Ankara.

Tuttugu sentímetra marmarasteinn fannst í farangri Davíðs á flugvellinum í Antalya á föstudag þegar hann var á leið úr landi. Steininn hafði hann keypt á markaði en Davíð var handtekinn þegar í stað, grunaður um að ætla að smygla dýrgrip úr landinu. Slíkt er litið mjög alvarlegum augum í Tyrklandi og við því getur legið margra ára fangelsisvist.

Fulltrúi ræðismannsins sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að alls óvíst væri á hvaða stigi málsins Davíð yrði látinn laus – hvort það yrði við fyrstu fyrirtöku fyrir dómi, hvort hann þyrfti að bíða ákæru eða jafnvel dóms. Allt ferlið gæti tekið marga mánuði en farið var fram á það í gær að Davíð yrði sleppt. Úrskurðar um það er að vænta í dag eða á morgun.

Starfsmaður sænska utanríkisráðuneytisins lenti í sams konar vandræðum í fyrra og þurfti að sitja í einn mánuð í gæsluvarðhaldi.

Davíð hefur nú verið skipaður opinber verjandi á vegum stjórnvalda, sem tekur við máli hans af lögmanni sem íslensk yfirvöld útveguðu honum um helgina.

Þóra Björg Birgisdóttir, kærasta Davíðs, segir það gera henni og fjölskyldu hans mun erfiðara fyrir að nálgast upplýsingar um stöðuna.

„Maður vissi nógu lítið fyrir og núna veit ég ekki neitt. Ég er búin að missa hann og ég veit ekki hvort hann er nógu sterkur til að halda þetta út,“ segir Þóra Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×