Innlent

Stjórnin mun sitja út allt kjörtímabilið

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir mun sitja út kjörtímabilið sem forsætisráðherra, eftir að Alþingi felldi vantrauststillögu Þórs Saari.
Jóhanna Sigurðardóttir mun sitja út kjörtímabilið sem forsætisráðherra, eftir að Alþingi felldi vantrauststillögu Þórs Saari. Fréttablaðið/GVA
Alþingi felldi tillögu Þórs Saari um vantraust á ríkisstjórnina og þingrof. Að tillögu Framsóknarflokksins var tillagan borin upp í tvennu lagi og var vantrauststillagan felld með 32 atkvæðum gegn 29. Einn þingmaður, Jón Bjarnason, sat hjá og Atli Gíslason var fjarverandi. Þar sem vantraustið var fellt kom ekki til atkvæðagreiðslu um seinni hluta tillögunnar.

Málflutningur þingmanna bar það með sér að þeir reiknuðu ekki með því að vantraustið yrði samþykkt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, kvartaði yfir viðbótarútgjöldum ríkisstjórnarinnar við fjárlög og sagði að þeim útgjaldaliðum myndi „líklega fjölga enn á þessum örfáu dögum sem eftir eru af þinginu“.

Ræður þingmanna báru einnig keim af því að kosningar eru í nánd. Segja má að þær hafi verið forsmekkur eldhúsdagsumræðnanna sem eru á morgun.

Brigslyrðin gengu á víxl; andstæðingar tillögunnar sökuðu Þór Saari um að ganga erinda Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og þá um að hafa gert Þór að leiðtoga sínum með því að styðja tillögu hans.

Stuðningsfólk vantrauststillögunnar sakaði stjórnina hins vegar um að hafa svikið loforð sín, vera hættulega atvinnulífinu og standa í vegi fyrir umbótum. Líkt og sjá má hér að neðan voru tilfinningar heitar og ýmis orð látin falla.

Nú liggur fyrir þingheimi að semja um þinglok en þingi á, samkvæmt starfsáætlun, að fresta á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×