Innlent

Útboði strandsiglinga frestað

Svavar Hávarðsson skrifar
Sundahöfn Útboði ríkisstyrktra strandsiglinga hefur verið frestað.
Sundahöfn Útboði ríkisstyrktra strandsiglinga hefur verið frestað. fréttablaðið/vilhelm
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gærmorgun tillögu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að fresta útboði á strandsiglingum við Ísland.

Bæði Samskip og Eimskip hafa tilkynnt fyrirætlanir um strandsiglingar sem hefjast munu á næstu vikum. Ráðherra segir að með því megi ætla að markmið verkefnisins nái fram að ganga og í því ljósi lagði hann til að útboði yrði frestað en áfram fylgst með framvindu málsins.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær töldu forsvarsmenn skipafélaganna hugmyndir um útboð á ríkisstyrktum strandsiglingum undarlegar eða með öllu óþarfar; markaðurinn hefði séð um að leysa málið. Þá kom fram að hugmyndir ríkisins um strandsiglingar væru engan veginn í takt við það sem nú gerist í þessum flutningum.

Innanríkisráðherra skipaði nefnd í maí 2011 til að vinna að verkefninu en þá benti ekkert til þess að strandsiglingar við Ísland myndu hefjast að nýju án ríkisstuðnings, segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Samskip munu hefja sínar siglingar 18. mars og Eimskip 14. mars. Því er útboði ríkisins frestað og látið á það reyna „hvort markmið fyrirhugaðra strandsiglinga um að auka flutninga á sjó og draga jafnframt úr því álagi sem er á vegakerfinu muni nást til frambúðar,“ segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×