Gagnrýni

Dimmari og kraftmeiri Bloodgroup

Trausti Júlíusson skrifar
Tónlist. Bloodgroup. Tracing Echoes. Kölski.

Ég man enn vel eftir því þegar ég sá hljómsveitina Bloodgroup spila í fyrsta skipi. Það var á Iceland Airwaves 2006 á skemmtistaðnum Pravda í Austurstræti. Þá vakti hún athygli fyrir skemmtilega og dansvæna tónlist og einkar líflega sviðsframkomu. Maður skynjaði strax einhvern kraft sem sagði manni að þessi hljómsveit yrði ekki ein af þeim sem hverfa af sjónarsviðinu skömmu eftir að þær skjóta upp kollinum. Bloodgroup hefur þróast mjög mikið síðan. Tónlistin er orðin hægari, dýpri og dimmari og sveitin hefur þróað hljóðheiminn mikið. En þessi kraftur sem einkenndi hana í byrjun er enn til staðar.

Tracing Echoes er þriðja plata Bloodgroup. Önnur platan þeirra, Dry Land, kom út árið 2009. Hún fékk alþjóðlega dreifingu á vegum Sugarcane-plötufyrirtækisins, sem m.a. gefur út tónlist David Lynch, Hot Chip og Hercules & Love Affair. Nýja platan er líka gefin út af Sugarcane á alþjóðavísu en Kölski sér um útgáfuna hérlendis.

Tracing Echoes er stórt skref tónlistarlega frá Dry Land. Hljómurinn er miklu dýpri og dimmari og er eiginlega alveg magnaður. Hann minnir svolítið á tónlist níunda áratugarins, ekki síst Depeche Mode, en á sama tíma er hann öðruvísi. Virkar kraftmikill og ferskur á árinu 2013. Þykkir og rifnir syntahljómar eru áberandi, í bland við fínlegri hljóma. Það var hljómsveitin sjálf sem sá um upptökustjórn, en Ólafur Arnalds (sem er með Janusi í teknódúettinum Kiosmos) útsetti strengina og samdi eitt besta lag plötunnar, Disquiet, með hljómsveitarmeðlimum. Platan hefur sterkan heildarsvip en lögin eru samt ólík og ýmis tilbrigði í gangi varðandi takta og yfirbragð. Báðir söngvararnir, Janus og Sunna, koma mjög vel út á plötunni.

Tracing Echoes er mjög flott plata. Hún sýnir að Bloodgroup er hljómsveit sem hefur mikinn metnað og sættir sig ekki við stöðnun. Tónlistin er ekki eins dansvæn og hún var en í staðinn er hún dýpri og áhrifameiri. Ég mæli með því að spila Tracing Echoes á miklum styrk í góðum græjum. Þannig virkar hún best.

Niðurstaða: Þriðja plata Bloodgroup sýnir að hljómsveitin þróast og styrkist með hverri plötu.

Tracing Echoes hefur sterkan heildarsvip en lögin eru samt ólík og ýmis tilbrigði í gangi varðandi takta og yfirbragð.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×