Skoðun

Sókn næsta kjörtímabils

Magnús Orri Schram skrifar
Hrunið skildi við ríkissjóð í 220 milljarða halla. Á fjórum árum hefur tekist að stöðva hallareksturinn, ríkissjóður er kominn í jafnvægi og nú er kominn grundvöllur viðspyrnu. En hvernig skal sækja fram?

Hefðbundnar atvinnugreinar munu ekki skapa næg störf eða verðmæti til framtíðar litið og þess vegna viljum við jafnaðarmenn horfa til virkjunar hugvitsins, skapandi greina, aukningar í tækni- og rannsóknarsjóði og ferðaþjónustu. Þá teljum við að forsenda verðmætasköpunar sé stöðugleiki í ytra umhverfi, afnám hafta og lágur vaxtakostnaður. Þess vegna setjum við aðildarviðræður við ESB á oddinn enda eru það hagsmunir almennings að ljúka viðræðum og leyfa þjóðinni að kjósa. Upptaka nýs gjaldmiðils er líka besta leiðin til að losna undan verðtryggingu og hárri verðbólgu. Þá ætlum við að lækka tryggingargjaldið og skapa ró og festu í skattkerfinu.

Við jafnaðarmenn ætlum að verja þrepaskiptan tekjuskatt sem leiddi til lægri skattbyrði hjá 60% þjóðarinnar. Aðrir flokkar hafa talað um skattalækkanir á þá sem eiga mest og þéna mest en við jafnaðarmenn viljum frekar forgangsraða í þágu þeirra sem eru með lægstu tekjurnar og til öryrkja, aldraðra, barnafólks og skuldara.

Þannig vilja jafnaðarmenn dreifa byrðunum jafnt, svo að hver leggi til samfélagsins í takti við efni og aðstæður. Árangri undanfarinna ára á að verja til þeirra sem verst hafa það, en ekki til þeirra sem best hafa það. En við munum ekki búa við öflugt velferðarkerfi án verðmætasköpunar. Þess vegna á að styrkja vaxtargreinar atvinnulífsins og taka upp nýja mynt svo fyrirtækin geti búið við heilbrigt viðskiptaumhverfi. Þannig viljum við jafnaðarmenn sækja fram á næsta kjörtímabili.




Skoðun

Sjá meira


×