Innlent

Tekin var "hugrökk ákvörðun“

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hassstaðir í Denver í Bandaríkjunum eru dæmi um það sem hægt væri að láta sér detta í hug í skapandi borg, sagði Jón Gnarr borgarstjóri í umræðum um aðalskipulag Reykjavíkur í borgarstjórn á þriðjudag.

Jón sagði að í Denver hefði hass verið lögleitt í fyrra á læknisfræðilegum forsendum. „Það gerðist bara á nokkrum mánuðum að það voru komnir fleiri svona hasssölustaðir heldur en eru Starbucks," sagði borgarstjórinn og vísaði í fréttaskýringaþáttinn 60 Minutes.

„Það var mjög athyglisvert, og ég er ekki að segja að við ættum að gera það sama. En það sem hefur gerst [...] með þessu er að þetta hefur skapað gríðarlega mikil atvinnutækifæri sem voru ekki til staðar áður."

Þá sagði Jón þetta vera þvílíka „lyftistöng" fyrir Denver að bandarísk stjórnvöld væru hikandi við eða þorðu ekki að skipta sér af málinu því allir væru svo gríðarlega ánægðir. „Þarna hefur bara verið tekin einhver hugrökk ákvörðun og menn bara látið slag standa. Hvort sem það er rétt eða rangt, menn mega síðan deila um það, en ég tek þetta bara sem dæmi," sagði borgarstjóri.

Jón hefur verið gagnrýndur fyrir þessi orð, meðal annars á þeim grundvelli að þau gangi gegn forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar í fíkniefnamálum. Ekki fékkst samtal við borgarstjóra vegna þessa máls í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×