Innlent

Gagnrýna munntóbaksumsögn

Viðar Jensson
Viðar Jensson
Rangt er að nálgast frekari takmörkun á sölu munntóbaks með því að miða skaðsemi þess við reykingar. Þetta segir í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Höfundarnir, Pétur Heimisson heimilislæknir og Eyjólfur Þorkelsson, almennur læknir, leggja þar út frá umsögn við frumvarp um breytingu á tóbakslögum, sem læknarnir Lúðvík Ólafsson og Þorsteinn Blöndal skrifuðu fyrir hönd Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Strangari lög eru viðbragð gegn aukinni munntóbaksneyslu, sérstaklega hjá ungum körlum.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum spurðu þeir Lúðvík og Þorsteinn í umsögn sinni um ástæður þess að banna munntóbak „sem er mun saklausara en reyktóbak sem er leyfð vara“.

Þeir taka fram að með þessu sé ekki verið að mæla með tóbaksnotkun yfirleitt, en ekki sé hægt að fullyrða annað en „að ávinningur sé í því fyrir hvern og einn að nota alfarið munntóbak í stað reykinga“.

Því sé ekki ávinningur af því að banna munntóbak á meðan mun hættulegri vara, reyktóbak, er á markaðnum. Því hljóti að vera ávinningur í því „að hafa á boðstólum minna hættulega vöru“.

Þeir Pétur og Eyjólfur furða sig á þessari umsögn, sem komi þvert á mat landlæknis, Hjartaverndar og Krabbameinsfélagsins.

„Reyklaust tóbak á fyrst og síðast að bera saman við „náttúrulegt ástand“ – tóbaksleysi en ekki tóbaksreykingar.“

Þeir bæta því við að sökum þess að fáar rannsóknir hafi verið gerðar á langtímaáhrifum munntóbaksneyslu sé ekki með vissu hægt að tala um skaða af þess völdum eða skaðleysi.

Þá liggi ekkert fyrir um að munntóbaksnotkun sé áhrifarík leið til þess að hætta að reykja, og markhópur framleiðenda sé ekki fólk sem vill hætta að reykja, heldur „ungt fólk með litla sem enga reykingasögu“.

Þeir kasta að lokum fram þeirri spurningu hvort rökrétt sé að hampa annarri tegund af tóbaki þegar staðan sé sú að rætt sé af alvöru um að sígarettur hverfi af markaði, og að það séu læknar sem viðri slíkt.

Viðar Jensson, verkefnastjóri hjá Landlæknisembættinu, tekur undir skrif Péturs og Eyjólfs um að nær sé að miða skaða munntóbaks við reykleysi.

„Þá kemur fram í okkar könnunum og nýjum rannsóknum að aukin neysla á munntóbaki virðist vera viðbótarneysla, sem kemur ekki í stað reykinga,“ segir Viðar.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×