Skoðun

Hrun á Landspítala

Sara Arnarsdóttir skrifar
Ég hef tekið þá erfiðu ákvörðun að segja upp starfi mínu á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á LSH. Ástæðurnar fyrir því eru tafir á endurnýjun stofnanasamnings við hjúkrunarfræðinga og einhliða ákvörðun Landspítala varðandi úthlutun þess fjármagns sem nú er í boði.

Þar sem ekki hafa náðst samningar um nýjan stofnanasamning á milli hjúkrunarfræðinga og stofnunarinnar hefur Landspítalinn ákveðið að úthluta fénu á hátt sem ég tel ekki sanngjarnan. Aðaláhersla er lögð á að veita þeim sem vinna mikla næturvinnu, helgarvinnu aðra hverja helgi og hafa viðbótarmenntun mestar úrbætur.

Við sem störfum í dagvinnu og höfum ekki viðbótarmenntun hækkum einungis um eitt launaþrep, þ.e. fáum launahækkun sem nemur rúmum sex þúsund krónum. Við þetta bætist álagsgreiðsla fyrir þriggja mánaða tímabil frá nóvember 2012 - janúar 2013. Skilyrði fyrir álagsgreiðslunni eru meðal annars að hafa fastráðningu og að þeir sem hafa sagt upp dragi uppsögn sína til baka fyrir 12. febrúar.

Ég starfaði á spítalanum þessa mánuði og tel mig því eiga fullan rétt á álagsgreiðslunni, líkt og fastráðnir starfsmenn. Þetta er ekki góð framkoma af hálfu spítalans og er gert til þess að vekja reiði. Allir hjúkrunarfræðingar hafa lagt sitt af mörkum í þessu kreppuástandi. Því tel ég að það fé sem hefur nú þegar hefur fengist eigi að deilast jafnt á alla hjúkrunarfræðinga.

Við höfum tekið þátt í sparnaði í mörg ár. Með forstjórann, Björn, í fararbroddi voru allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum, þar til velferðarráðherrann, Guðbjartur Hannesson, ákvað að bjóða Birni launahækkun upp á 450 þúsund krónur á mánuði. Nú bjóða þessir sömu menn mér sex þúsund króna launahækkun sem fyrsta skref í jafnlaunaátaki.

Okkur hefur verið boðið upp á lélegan tækjakost og vinnuaðstöðu.

Við höfum unnið undir miklu álagi og ekki fengið greitt fyrir aukavaktir heldur tekið þær út í fríi. Á minni deild er ekki pláss fyrir allt starfsfólk deildarinnar í kaffistofunni. Það eru of fáir stólar í boði fyrir sjúklinga sem þurfa á vera í lyfjameðferð og við þurfum stundum að hafa þá á ganginum. Við höfum sýnt þessu skilning og gert það besta úr aðstæðum hverju sinni.

Ég velti því fyrir mér hvernig ástandið verði í mars þegar allt þetta fagfólk gengur út? Hvað verður um sjúklingana og starfsfólkið sem eftir er?

Hvað ætlar ríkið að gera til að bregðast við hruni Landspítalans?




Skoðun

Sjá meira


×