Skoðun

Jafnræði fyrir fólk en ekki hús

Gunnar Einarsson skrifar
Jafnræði er fulltrúum M-listans í Garðabæ hugleikið, samkvæmt því sem fram kemur í grein þeirra um fjárveitingar til skólamála í Garðabæ sem birtist í Fréttablaðinu 29. janúar sl. Þegar rýnt er í greinina kemur hins vegar í ljós að jafnræðið snýst í þeirra augum ekki um fólk heldur um stofnanir og byggingar.

Í Garðabæ hafa skólamál alltaf verið í öndvegi. Lögð er áhersla á fjölbreytni og gæði bæði hvað varðar kennslufræðilegar áherslur og rekstrarform. Foreldrar velja þann skóla sem þeir telja að henti sínu barni best og borga engin skólagjöld hvort sem skólinn er rekinn af bænum eða einkaaðilum, skv. samningi Garðabæjar við þá einkareknu grunnskóla sem eru í bæjarfélaginu.

Skylt að greiða framlag til einkarekinna skóla

Í 3. mgr. 43 gr. laga um grunnskóla er mælt fyrir um að einkareknir grunnskólar eigi rétt á framlagi frá sveitarfélaginu vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar. „Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands."

Ástæða þess að sveitarfélögum er gert skv. lögum að greiða að lágmarki 75% af kostnaði einkarekinna skóla er að þeir geta innheimt skólagjöld af foreldrum fyrir því sem upp á vantar. Í samningi Garðabæjar og Hjallastefnunnar er hins vegar ákvæði um að Hjallastefnunni sé ekki heimilt að innheimta skólagjöld af nemendum búsettum í Garðabæ. Í staðinn greiðir Garðabær 100% framlag með sínum nemendum en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur meðalrekstrarkostnaði grunnskóla Garðabæjar.

Grunnskólar Garðabæjar hafa ávallt verið vel reknir og því fær Hjallastefnan með hverjum nemanda úr Garðabæ kr. 1.294.020, sem er meðalkostnaður á nemanda í grunnskólum Garðabæjar á meðan meðalkostnaður á hvern nemanda í landinu er 1.411.847 kr. skv. útreikningum Hagstofunnar.

Ekki heimilt að skilja húsnæðiskostnað frá

Í þeirri tölu sem Hagstofan birtir er allur kostnaður við rekstur skólanna, bæði húsnæðiskostnaður og kostnaður við innra starf skólanna. Lögin heimila því ekki að reiknaður sé út meðalrekstrarkostnaður án húsnæðiskostnaðar og hann nýttur til viðmiðunar. Húsnæðiskostnaður skóla er eðlilega mjög misjafn. Þar getur ýmislegt spilað inn í svo sem stærð húsnæðis, aldur þess o.fl. Annar kostnaður getur einnig verið misjafn á milli skóla t.d. kostnaður við sérkennslu, launakostnaður o.fl. Fullt jafnræði á milli skóla í fjárveitingum verður því aldrei tryggt.

Ef litið er til grunnskóla Garðabæjar kemur í ljós töluverður munur á skólum. Húsnæðiskostnaður er lægstur í Hofsstaðaskóla, ríflega 200 þús. kr. á nemanda en hæstur í Sjálandsskóla, tæplega 900 þúsund kr., enda er húsnæði skólans nýlegt og mun stærra en húsnæði Hofsstaðaskóla. Flataskóli er þar á milli með húsnæðiskostnað sem nemur um 500 þúsund kr. á nemanda.

Rangt farið með kostnað Hjallastefnunnar

Í grein fulltrúa M-listans er því haldið fram að húsnæðiskostnaður Barnaskóla Hjallastefnunnar sé aðeins um 60 þúsund kr. á hvern nemanda á ársgrundvelli. Ef litið er á húsnæðismál Hjallastefnunnar sést að þessi tala segir ekki alla söguna. Hjallastefnan hefur reist eitt hús á lóð Vífilsstaða og á að auki tvö önnur skólahús sem hafa verið sett þar niður. Þá leigir Hjallastefnan þrjár byggingar á lóðinni af Garðabæ.

Í þeirri tölu sem nefnd er í greininni er eingöngu horft á kostnað vegna leigu húsnæðis af Garðabæ en ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna þess húsnæðis sem er í eigu Hjallastefnunnar. Þessi tala gefur því ranga mynd. Skv. upplýsingum frá Hjallastefnunni nemur stofnkostnaður húsanna sem eru í hennar eigu á Vífilsstöðum 132 milljónum króna á árunum 2003-2010 og 248 milljónum króna á árunum 2010-2012.

Þegar þessar tölur eru teknar inn í myndina og húsnæðiskostnaður reiknaður á sama hátt og gert er gagnvart grunnskólum Garðabæjar er húsnæðiskostnaðurinn 225 þúsund krónur á hvern nemanda en ekki 60 þúsund kr.

Hagkvæmasta leiðin ávallt valin

Sú ákvörðun sem fulltrúar M-listans reyna með grein sinni að gera tortryggilega, þ.e. að hækka framlög til Hjallastefnunnar vegna nemenda á miðstigi, miðar að því að hækka framlagið úr 75% af meðalrekstrarkostnaði upp í 100% af meðalkostnaði grunnskóla Garðabæjar, eins og gert er vegna yngri nemenda, enda er skólanum óheimilt að innheimta skólagjöld af foreldrum eins og áður segir. Samanburður við Alþjóðaskólann er hins vegar byggður á misskilningi.

Alþjóðaskólinn hefur aðsetur í húsnæði Sjálandsskóla. Skólinn greiðir enga húsaleigu og ber því engan húsnæðiskostnað. Af þeim sökum hefur Garðabær samið við skólann um að greiða aðeins þau 75% af meðalrekstrarkostnaði skóla á landinu sem lög um grunnskóla gera ráð fyrir. Í þessum efnum sem öðrum er ávallt hugað að því að fara hagkvæmustu leiðina en tryggja um leið gæði skólastarfsins og valfrelsi nemenda.

Skólar mega leita styrkja

Í greininni er kemur sú rangfærsla fram að Barnaskóli Hjallastefnunnar hafi það umfram skóla sem reknir eru af Garðabæ að geta aflað styrkja, þar sem skólum bæjarins sé það óheimilt. Þetta er einfaldlega rangt. Grunnskólum Garðabæjar er ekki bannað að þiggja styrki frá öðrum aðilum en bæjarfélaginu.

Þvert á móti hefur Garðabær lagt áherslu á gott samstarf við atvinnulífið og hafa skólar bæjarins m.a. fengið veglega styrki í formi kennslutækja frá Marel auk þess sem IKEA hefur stutt við kennslu í hönnun og skapandi greinum í skólunum. Þá hafa grunnskólar Garðabæjar notið velvildar og styrkja frá ýmsum félagasamtökum í gegnum árin, fengið styrki frá Comenius og frá fleiri aðilum.

Mikil ánægja með skólastarf í Garðabæ

Í Garðabæ hafa foreldrar frjálst val um skóla fyrir börn sín. Þeir geta ekki eingöngu valið á milli þeirra góðu skóla sem Garðabær rekur heldur geta þeir einnig valið annan af þeim tveimur einkaskólum sem starfa í bænum, telji þeir hann henta sínu barni best, án þess að þurfa að borga þar skólagjöld.

Valið er íbúum mikils virði. Það hefur margoft komið fram í könnunum og kemur jafnframt fram í því að ánægja íbúa í sextán stærstu sveitarfélögum landsins með þjónustu grunnskóla mælist hvergi meiri en í Garðabæ skv. könnun fyrirtækisins Capacent Gallup frá árinu 2012.

Allar tilraunir til að nýta skólastarf í Garðabæ til að koma af stað órökstuddum grunsemdum um spillingu eða til að sverta mannorð einstakra bæjarfulltrúa, líkt og gert er í áðurnefndri grein fulltrúa M-listans, eru bæði ómaklegar og ósmekklegar og eru ekki til þess fallnar að bæta skólastarfið.

Börnin í fyrirrúmi

Með frjálsu vali eru börnin í fyrirrúmi. Ætlast er til þess að skólakerfið komi til móts við þarfir barnanna en ekki að börnin lagi sig að þörfum skólanna eða þeirra bygginga sem þeir starfa í. Valið hefur vissulega í för með sér fórnarkostnað. Hann kemur fram í því að húsnæði skólanna getur verið misvel nýtt frá ári til árs.

Með því að setja upp hverfismúra og flytja öll börnin sem nú eru í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Flataskóla væri bestu mögulegri nýtingu skólahúsnæðis náð. En þá væri komið í veg fyrir val um skóla og börnin þvinguð til að laga sig að þörfum skólanna en ekki öfugt.

Í mínum huga er engin spurning um það að sá fórnarkostnaður frjálsa valsins að „sitja uppi" með misvel nýtt skólahúsnæði er fullkomlega þess virði. Í mínum huga snýst jafnræðið um fólkið. Það snýst um jafna möguleika allra barna til að stunda nám í þeim skóla sem þeim hentar best, en ekki um stofnanir eða byggingar.




Skoðun

Sjá meira


×