Skoðun

Forgangsmálin

Jón Kristjánsson skrifar
Flokksþing Framsóknarflokksins er fram undan og þar fylkir flokksfólk liði í kosningabaráttuna, en kosningar eru skammt undan. Fulltrúarnir koma nú til þingsins með byr í skoðanakönnunum og það er vel. Það veitir ekki af fólki í stjórnmálum um þessar mundir sem er með báða fætur á jörðinni.

Ég skrifa þessar línur vegna þess að mér er afar hugstætt hvert forgangsverkefnið á að vera í íslenskum stjórnmálum næstu misserin. Framsóknarmenn hafa haldið þessu verkefni á lofti í ræðu og riti og ég veit að þeir gera það áfram og skerpa málatilbúnað sinn á flokksþinginu. Þetta mál er skuldastaða heimilanna í landinu og staða þess fólks sem er að gera allt í senn, borga skuldir af íbúðarhúsnæði, borga námslánin sín og ala upp börnin sín með öllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Út yfir tekur þó ef fólk býr við öryggisleysi í atvinnumálum eða atvinnuleysi. Sem betur fer tekst fjölda fólks að standa í skilum en þó sér ekki högg á vatni og skuldirnar lækka ekki neitt.

Engir markverðir áfangar

Aðgerðir varðandi þessi mál verða að fara á forgangslista stjórnvalda. Það verður ekki séð að þessi ríkisstjórn nái neinum markverðum áföngum í þessum málum, meðan forgangsmálið er að afgreiða heildarendurskoðun á stjórnarskránni í andnauð og andstöðu við fræðasamfélagið í landinu. Þetta á að gerast á síðustu dögum Alþingis í vetur, en aðeins lifir mánuður eftir af þingtímanum.

Auknar framkvæmdir og hagvöxtur verða að koma til ef takast á að ná markverðum áföngum í skuldamálunum. Ríkisfjármálin verða aldrei viðráðanleg nema þau fái auknar tekjur sem eiga rætur að rekja til hagvaxtaraukningar. Það er ógjörningur að skattleggja sig út úr þessum vanda, eins og stjórnvöld hafa reynt að gera með hækkuðum sköttum og hækkaðri gjaldtöku á öllum sviðum, og eru sveitarfélögin þar ekki undanskilin.

Framsóknarmenn hafa haldið umræðunni um skuldamálin við og ég veit að þeir halda því áfram og verða óþreytandi í kosningabaráttunni og það sem eftir lifir þings að draga fram hvers konar forgangsmál þetta eru.

Ég hrökk við nú í vikunni þegar ég las fyrirsögn á netinu og er höfð eftir peningastefnunefnd Seðlabankans. Hún hljóðar svo: Minni hagvöxtur, veikari króna, hægari fjölgun vinnustunda. Þannig er ástandinu um þessar mundir lýst. Þessu þarf að breyta.




Skoðun

Sjá meira


×