Skoðun

Útvarps- og sjónvarps-samband í dreifbýli

Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir skrifar
Þar sem ég er nýorðin 18 ára, lögráða og byrjuð að borga skatta fór ég að kynna mér fyrir hvað ég borga skatt. Það sem liggur mér helst á brjósti er skattur sem okkur ber að greiða fyrir ríkisútvarpið, það er 17.000 krónur árlega á mann, og dagskráin og þjónustan þar af skornum skammti.

Útvarpsefni skammtað

Nú tala ég sérstaklega fyrir bændur og okkur fólkið sem er búsett langt frá þéttbýli og næstu útvarpssendum. Okkur fólkinu í dreifbýlinu er skammtað útvarpsefni þar sem það er svo lélegt samband að RÚV næst ekki, það er því flakkað á milli langbylgjunnar og RÚV. Oft þegar ég hlusta á útvarpið missir það sambandið og fer á aðra stöð svo að ég get ekki klárað að hlusta á þáttinn sem ég var að hlusta á. Tala nú ekki um það þegar jólamessan næst ekki inn á heimilið, en þannig var það í ár og pabbi hljóp í ofvæni út, kveikti á bílnum og hlustaði á messuna þar.

Fyrir tuttugu árum var það forgangsmál á þingi að það kæmi gott sjónvarps- og útvarpssamband um land allt. En í dag er ekki enn þá búið að negla það mál. Tek sem dæmi að á mínu heimili náum við ekki ríkissjónvarpinu nema í gegnum digital-lykil frá Stöð 2, sem er allt annar handleggur og því meiri skattur ofan á skattinn frá RÚV. Ef við drögum saman það sem ég var að segja þá er þetta nokkurn veginn staðan:

n Það er ekki almennilegt útvarpssamband.

n Útvarpsefnið er skammtað, þar sem útvarpið dettur út þá og þegar og flakkar á aðrar stöðvar í gríð og erg til að ná merki.

n Annar peningur fer í aðra sem sjá til þess að sjónvarpið náist.

Ég spyr því, fyrir hvað erum við að borga þessar 17 þúsund krónur?




Skoðun

Sjá meira


×