Skoðun

Handbendi valdsins

Pétur Fjeldsted Einarsson skrifar
Senn líður að kosningum. Atkvæðaveiðar frambjóðenda eru fram undan. Tími loforða, leikja og látbragða er runninn upp. Riddarans á hvíta hestinum með lausnirnar er vænst, sem leiða mun þjóðina úr skugga fortíðar og inn í birtu og yl þeirrar framtíðar er þjóðin þráir.

En hvað ef riddarinn kemur ekki? Sitjum við þá uppi með okkur sjálf? Munum við einu sinni enn senda fulltrúa á Alþingi Íslendinga, þar sem flokkurinn kemur fyrst og þjóðin rekur lest?

Hver tekur þá á stóru málunum, sem leiða þarf til lykta á grundvelli fjármálaöryggis, atvinnuöryggis, fæðuöryggis, velferðar og sjálfstæðis? Hvaða mál eru það annars og hvernig gætu þau verið öðruvísi en við eigum að venjast? Er verðtrygging á húsnæðislán náttúrulögmál, svo dæmi sé tekið? Er óstöðugleiki í ríkisfjármálum okkar besta svar við þeirri hagsæld, sem við gætum notið? Mun fjórflokkurinn áfram tölta sinn vanagang eða munu smáflokkarnir skeiða í mark með von um betri tíð? Það er stundum sagt að ungdómurinn muni erfa þetta land. En hverjir, nema óvitar, hafa áhuga á því, með öllum þeim göllum sem því fylgir?

Kjósendur hafa valdið

Í þessu fagra landi hefur þessi ríka þjóð klúðrað nánast öllu sem hægt er að klúðra í ríkisbúskap, lagasetningu varðandi úrbætur á fjármálakerfinu og því lýðræðisfyrirkomulagi, sem við búum við. Einræðisherra myndi hér engu vilja breyta. Með kjörna fulltrúa, sem handbendi valdsins, færi hann sínar leiðir í þeim málum, sem hann skipta. Þjóðin á ekki að sætta sig við þaulsetinn og einsleitan valdakjarna. Kjósendur hafa valdið og eiga ekki að framselja það nema með skýrum skilyrðum. Nokkrir tugir sjálfskipaðra riddara eiga ekki að fá að valsa frjálsir á víðavangi með fjöregg þjóðarinnar í vasanum.

Rúmlega 200.000 kosningabærra Íslendinga verða að þétta raðirnar, blása til sóknar, efla beint lýðræði og koma á reglulegum þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál. Sameinuð getum við betur. Stólum ekki á að aðrir geri þetta fyrir okkur. Við þurfum ekki riddarann á hvíta hestinum. Við þurfum hvíta hestinn.




Skoðun

Sjá meira


×